mánudagur 18. nóvember 2013

Þrír vettvangsskólar árið 2014

[mynd 1 h t]

Eitt af þeim verkefnum sem Háskólasetur sinnir er að aðstoða erlenda háskóla við að skipuleggja dvöl vettvangsskólahópa á Vestfjörðum. Sumarið 2012 mættu þrír hópar til leiks, en síðastliðið sumar aðeins einn. Sumarið 2014 er von á fjórum hópum, segja má að þrír þeirra séu fastagestir, en að auki er nú von á hópi á vegum þýsks háskóla sem er að koma hingað í fyrsta sinn. Hóparnir dvelja á Vestfjörðum misjafnlega lengi, allt frá fjórum dögum upp í þrjár vikur.

Fyrsti hópur sumarsins rennir í hlað upp úr miðjum júní og er hann á vegum School for International Training (SIT). Um tuttugu nemendur verða í hópnum sem dvelur á Vestfjörðum í þrjár vikur. Um að að ræða áttunda hópinn sem þessi háskóli í Vermont-fylki í Bandaríkjunum sendir til Vestfjarða. Nemendurnir stunda sumarlangt nám í umhverfishagfræði og orkutækni eða Renewable Energy, Technology, and Resource Economics upp á ensku. Auk þess að sitja á skólabekk í Háskólasetrinu og vinna að verkefnum fer hópurinn í vettvangsferðir til að kynna sér orkubúskap Vestfirðinga. Einnig fá nemendur kennslu í íslenskri tungu og menningu sem er miklivægur liður í náminu. Fyrstu tvær vikurnar af þessum þremur munu ungmennin gista hjá fjölskyldum á svæðinu, líkt og undanfarin tvö sumur. Síðustu vikuna dvelur hópurinn svo að Friðasetrinu í Holti, Önundarfirði. Heimagistingin er mjög vinsæll liður í náminu og hafa góð tengsl myndast á milli nemendanna og gestgjafa. Snemma á nýju ári verður farið af stað með að auglýsa eftir gestgjöfum.

Á sama tíma og SIT hópurinn dvelur hér er von á öðrum hópi frá Christian-Albrechts-háskólanum í Kiel í Þýskalandi (CAU). Þetta er í fyrsta sinn sem skólinn sendir hóp til Vestfjarða en reiknað er með u.þ.b. 20 nemendum ásamt kennurum úr deild Norrænna fræða. Hópurinn dvelur aðeins eina viku á landinu en mun verja fjórum dögum á Vestfjörðum með gistingu í Breiðuvík og á Ísafirði.


[mynd 2 h]Um miðjan júlí verður hér á ferðinni hópur nemenda og kennara á vegum íslenskudeildar Háskólans í Manitoba í Kanada, en deildin er sú eina sinnar tegundar í Norður-Ameríku. Nemendahópurinn verður í fylgd þeirra Peter John Buchan og Dr. Birnu Bjarnadóttur, forstöðumanns íslenskudeildarinnar. Birna hefur haft veg og vanda að heimsóknum þessara hópa frá fyrstu heimsókn þeirra til Vestfjarða árið 2007 og hefur hún komið með hópa til Vestfjarða árlega síðan með einni undantekningu. Vettvangsskólinn ferðast um landið í þeim tilgangi að fræðast um nútíma- sem og miðalda menningu Íslendinga og er koma hans í samstarfi við Háskólasetrið og Háskóla Íslands. Ýmsir fræðimenn halda fyrirlestra, rithöfundar standa fyrir upplestrum og hópurinn heimsækir ýmsar menningarstofnanir. Ráðgert að að hópurinn dvelji í nokkra daga á Hrafnseyri við Arnarfjörð sem og í Holti.

Í byrjun ágúst er von á hópi frá Háskólanum í Washington og er hann sá þriðji í röðinni frá þeim háskóla. Hópurinn situr áfangann CHID (Comparative History of Ideas) Summer Program, sem er þverfaglegt nám þar sem sambandið milli manns og náttúru er í brennidepli. Á dagskrá eru m.a. fyrirlestrar, heimsóknir á söfn, skoðunarferðir og íslenskukennsla. Yfirumsjón með hópnum hefur sem fyrr Dr. Phillip Thurtle.

[mynd 3 h t]

Auk þess að bæta við sig þekkingu í viðkomandi fræðigrein fræðast nemendur vettvangsskólanna um Vestfirði, svæðið, söguna og menninguna á meðan þeir dvelja hér. Heimamenn eru fengnir til að miðla af þekkingu sinni og er Gísla saga dæmi um menningararf sem þessir erlendu nemar hafa fengið að kynnast í gegnum bókmenntafyrirlestra, gönguferðir á söguslóðum og í formi leiksýningar.

Það lítur úr fyrir að sumarið 2014 verði viðburðarríkt og við hlökkum til að taka á móti fastagestum jafnt sem nýjum gestum.

Frekari upplýsingar um vettvangsskóla má finna á vef Háskólaseturs. Einnig má hafa samband við Pernillu Rein verkefnastjóra pernilla(hjá)uwestfjords.is