miðvikudagur 27. janúar 2010

Þrír nýir starfsmenn í ársbyrjun

Um áramótin varð nokkur breyting á starfsliði Háskólasetri Vestfjarða. Fagstjóri meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun, Sigríður Ólafsdóttir, er í fæðingarorlofi. Í hennar stað tók til starfa Dagný Arnarsdóttir. Meðal fyrsta verkefna Dagnýjar var að skipuleggja kynningar nemenda á meistararitgerðum sínum. Dagný stjórnaði kyningunum klakklaust með hjálp Skype, glæra, sms og ekki síst klukku, enda voru nemendur, leiðbeinendur og prófdómarar staddir víðsvegar um heiminn. Það þurfti því ekki einungis að samræma hvað tæknimál varðaði heldur einnig með tilliti til tímabelta.

 

Sigurður Arnfjörð Helgason hefur sagt upp störfum til að einbeita sér hótelrekstri að Núpi í Dýrafirði eftir að hafa verið í hlutastarfi hjá Háskólasetrinu undanfarin misseri. Segja má að Hótel Núpur sé fyrsta afleidda fyrirtæki Háskólaseturs Vestfjarða, þ.e.a.s. fyrirtæki sem starfsmaður eða nemandi Háskólaseturs stofnar og hefur lifibrauð af.

 

Árið 2009 starfaði Andrea Kasper í hlutastarfi hjá Háskólasetrinu, m.a. við textagerð og yfirlestur á ensku og við kynningarmál, einkum í Norður Ameríku. Einnig hafði hún umsjón með svokölluðu „Writing Centre", því eina sinnar tegundar við íslenska háskólastofnun, en þar fengu meistaranemar aðstoð við ritgerðarsmíð. Andrea flytur á næstu vikum til Skagastrandar, þar sem eiginmaður hennar mun starfa hjá sjávarlíftæknisetrinu BioPol.

 

Auk Dagnýjar Arnarsdóttur hófu störf, nú um áramótin, þær Albertína Friðbjörg Elíasdóttir og Heiðrún Tryggvadóttir í hlutastörfum sem verkefnastjórar. Albertína hefur áður starfað sem verkefnastjóri hjá Háskólasetri í stuttan tíma auk þess að kenna tvö ár í frumgreinanáminu. Heiðrún kenndi á íslenskunámskeiðinu í ágúst í fyrra og mun hún sinna utanumhaldi íslenskunámskeiða á árinu 2010.