mánudagur 23. ágúst 2010

Þriggja vikna íslenskunámskeiði lýkur - viku námskeið hefst

Síðastliðinn föstudag lauk tveimur þriggja vikna íslenskunámskeiðum við Háskólasetrið. Námskeiðin heppnuðust í alla staði vel, bæði námskeiðið fyrir skiptinema sem fram fór á Núpi og opna námskeiðið sem fram fór á Ísafirði. Í dag hófst svo vikulangt íslenskunámskeið við Háskólasetrið með 15 nemendum frá ýmsum löndum.

Um það leyti sem nemendur þriggja vikna námskeiðanna lögðu af stað til Reykjavíkur, ýmist til að skemmta sér á Menningarnótt eða til að ná flugi heim, komu nýjir nemendur til Ísafjarðar til að taka þátt í vikunámskeiðinu. „Við erum mjög ánægð með hvernig til tókst með þriggja vikna námskeiðin í ár og fengum góð viðbrögð frá nemendunum. Þannig að ég vonast til þess að næsta námskeiðið verði jafn árangursríkt og skemmtilegt" segir Heiðrún Tryggvadóttir, verkefnastjóri og kennari á vikunámskeiðinu.

Um það bil helmingur nemendanna á þessu námskeiði munu hefja nám í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetrið, hinn helmingurinn er hér til að læra íslensku af öðrum ástæðum. Til dæmis Philipp Ewers, ölgerðarmaður frá Düsseldorf í Þýskalandi. Hann kom fyrst til Íslands sem ferðamaður, en varð strax ástfanginn af landinu og tungunmálinu og ákvað þess vegna að leita sér að vinnu hér. „Allt gerðist rosalega hratt, ég sótti um í júní, fékk vinnuna nokkrum vikum síðar og núna er ég hér, að reyna að læra svolitla íslensku áður en ég fer að vinna hjá ölgerðinni Miði á Stykkishólmi."

Á vikunámskeiðinu er lögð áhersla á samskiptafærni og gagnleg orðasambönd, þannig að Philipp og hinir nemendur ættu að geta notað þekkinguna sína strax að þessari viku lokinni.

Á föstudaginn var haldið veglegt lokahóf fyrir þriggja vikna námskeiðin á Núpi og sáu nemendur að mestu sjálfir um að útbúa hressileg skemmtiatriði.
Á föstudaginn var haldið veglegt lokahóf fyrir þriggja vikna námskeiðin á Núpi og sáu nemendur að mestu sjálfir um að útbúa hressileg skemmtiatriði.