Þriðjungur meistaranema frá Norðurslóðaháskólum
Háskólasetur Vestfjarða hefur verið meðlimur í samtökum norðurslóðaháskóla UArctic síðan 2006 og hefur á þeim tíma byggt upp þétt og gott samstarfsnet við stofnanir á háskólastigi á norðurslóðum. Náin samskipti á norðurslóðum koma líka fram í nemendahópnum: Þó að meistaranemar komi frá mörgum löndum og háskólum, eru þeir nemar, sem hafa tekið grunnnámið í norðurslóðaháskóla, þriðjungur allra nema 2011-árgangsins. Þannig virðist sem Háskólasetur Vestfjarða sé að verða þekktur staður fyrir UArctic-nema, sem þétta ennfremur böndin milli norðurslóðaháskólanna.