föstudagur 24. júní 2011

Þrettán nemendur útskrifuðust í haf- og strandsvæðastjórnun

Þann 17. júní síðastliðinn var mikið um dýrðir á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Eins og alþjóð veit fór þar fram hátíðleg dagskrá og opnun nýrrar sýningar um Jón Sigurðsson í tilefni þess að tvö hundruð ár voru liðin frá fæðingu hans. Liður í hátíðarhöldunum var útskriftarathöfn meistaranema í haf- og strandsvæðastjórnun frá Háskólasetri Vestfjarða og Háskólanum á Akureyri. Þetta er annað árið sem slík athöfn er haldin í tengslum við hátíðarhöld á Hrafnseyri á 17. júní og jafnframt önnur útskrift meistaranema af námsleiðinni í haf- og strandsvæðastjórnun.

Í ár útskrifuðust þrettán nemendur með meistaragráðu í haf- og strandsvæðastjórnun. Námið er vottað af Háskólanum á Akureyri og námsgráðan gefin út af honum. Rektor HA, Stefán B. Sigurðsson afhenti nemendum prófskírteini og ávarpaði samkomuna. Í máli rektors kom m.a. fram hve fjölbreytt samstarf HA og Háskólasetursins er umfram sjálft meistaranámið einkum á sviði fjarnáms en tilraunaverkefni í fjarnámi í sálfræði var keyrt á Ísafirði síðastliðinn vetur.

Peter Weiss forstöðumaður Háskólasetursins tók einnig til máls. Hann beindi máli sínu til útskriftarnemanna og lagði áherslu á það hvernig sú menntun sem nemendur hafa öðlast á Ísafirði getur nýst þeim í framtíðinni.
Prófessorarnir Gabriela Sabau og Marc L. Miller ávörpuðu einnig samkomuna fyrir hönd kennara auk þess sem útskriftarnemendurnir Alan Deverell, Etienne Gernez og Petra Granholm komu fram fyrir hönd nemenda.

Útskriftarnemarnir Alan Deverell, Etienne Gernez og Petra Granholm.
Útskriftarnemarnir Alan Deverell, Etienne Gernez og Petra Granholm.
1 af 4