fimmtudagur 18. október 2012

Þræðir í verkum Jóns Kalmans

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða, föstudaginn 19. október, mun Ingi Björn Guðnason fjalla um nokkra þræði í höfundarverki rithöfundarins Jóns Kalmans Stefánssonar. Í erindinu verður komið víða við en meðal þess sem ber á góma er hlutverk rithöfunda í samfélaginu og samsláttur skáldskapar og veruleika. Einnig koma við sögu gólandi menn, gamlar konur og björgunarsveitir í þrotlausu útkalli.

Ingi Björn Guðnason er bókmenntafræðingur að mennt og hefur starfað hjá Háskólasetri Vestfjarða undanfarin fimm ár. Meistaraprófsritgerð hans, Skrifin bakvið Brekkuna, fjallar um sveitasöguþríleik Jóns Kalmans sem kom út á seinnihluta tíunda áratugarins. Auk þess hefur Ingi Björn skrifað ritdóma um verk Jóns Kalmans ásamt því að vinna tvo útvarpsþætti um þrjár nýjustu bækur höfundarins undir yfirskriftinni En allt eru þetta orð.

Að vanda fer Vísindaportið fram í kaffisal Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Allir velkomnir.

Á mörkum skáldskapar og veruleika? Fyrirlesari við það að hverfa í bókabúðinni Shakespeare and Company í París.
Á mörkum skáldskapar og veruleika? Fyrirlesari við það að hverfa í bókabúðinni Shakespeare and Company í París.