mánudagur 18. júní 2007

Þjóð og hnattvæðing á Hrafnseyri

Dagana 16. og 17. júní var haldið alþjóðlegt málþing á Hrafnseyri sem bar yfirskriftina Þjóð og hnattvæðing. Þingið var haldið af Háskólasetri Vestfjarða og Safni Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og var skipulagt í samvinnu við Evrópufræðasetur Háskólans á Bifröst, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Hugvísindadeild Háskóla Íslands.

Fyrirlesarar voru meðal þeirra fremstu á sviði alþjóðastjórnmála og þjóðernishugmynda í heiminum í dag. Erlendir fyrirlesarar voru þau Liah Greenfeld, prófessor við Boston háskóla og Ole Wæver og Lene Hansen frá Kaupmannahafnarháskóla. Íslensku fyrirlesararnir voru þau Auðunn Arnórsson blaðamaður á Fréttablaðinu, Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur, Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur og forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst, Guðmundur Hálfdanarson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og Valdimar Halldórsson forstöðumaður Safns Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri.

Þingið var mjög vel heppnað og voru þátttakendur mjög ánægðir, bæði með ráðstefnuna sjálfa og ekki síst hið fagra umhverfi á Hrafnseyri.