laugardagur 16. júní 2007

Þjóð og hnattvæðing: Þjóðhátíðarþing á Hrafnseyri 16.-17.júní

Helgina 16.-17. júní standa Háskólasetur Vestfjarða og Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri fyrir þjóðhátíðarþingi á Hrafnseyri. Þingið er skipulagt í samvinnu við Evrópufræðastofnun Háskólans á Bifröst, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Hugvísindadeild Háskóla Íslands.

Hátíðarþingið ber yfirskriftina Þjóð og hnattvæðing og eru nokkrir af virtustu fræðmönnum heims á þessi sviði væntanlegir til Hrafnseyrar til að fjalla um þetta áhugaverða málefni.

Íslensku fyrirlesararnir verða þeir Auðunn Arnórsson blaðamaður, Birgir Hermannsson, stjórnmálafræðingur, Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur og forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst, Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og síðast en ekki síst Valdimar Halldórsson, staðarhaldari á Hrafnseyri.

Erlendu fyrirlesararnir eru heldur engir aukvisar á þessu sviði en þau eru Lene Hansen, Liah Greenfeld og Ole Wæver. Lene Hansen er dósent í alþjóðasamskiptum við stjórnmálafræðideild Háskólans í Kaupmannahöfn. Liah Greenfeld er prófessor í stjórnmálafræði við Boston University en hún hefur stundað fræðistörf og kennt við marga virtustu háskóla heims, m.a. Harvard Háskóla. Ole Wæver er prófessor við stjórnmálafræðideild Háskólans í Kaupmannahöfn.

Eins og sjá má er hér um að ræða einstakt tækifæri fyrir þá sem hafa áhuga á alþjóðamálum, Evrópumálum, hnattvæðingunni og þjóðernishyggju, að koma og hlusta á nokkra helstu fræðimenn heimsins á þessu sviði.

Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstaður Jóns Sigurðssonar, er að sjálfsögðu mjög viðeigandi staðsetning fyrir þing sem þetta. Fólk er hvatt til þess að nýta þetta frábæra tækifæri, skoða þennan sögufræða stað í leiðinni og taka um leið þátt í 17. júní hátíðarhöldum.

Þingið hefst kl. 9 á laugardagsmorguninn 16. júní og stendur frameftir degi. Dagskráin hefst síðan aftur kl. 10 þann 17. júní og stendur til hádegis. Eftir hádegi tekur svo við hátíðardagskrá í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslendinga þar sem Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, flytur hátíðarræðu dagsins.