miðvikudagur 24. nóvember 2010

Þekkingarsköpun er verðmætasköpun

Þekkingarsköpun er verðmætasköpun

Við Háskólasetur Vestfjarða er starfrækt námsbraut á meistarastigi í haf- og strandsvæðastjórnun, sem á ensku útleggst Coastal and Marine Management. Þetta er sérhæft, alþjóðlegt nám í umhverfis- og auðlindastjórnun, með sérstaka áherslu á málefni hafs og stranda. Öll kennsla fer fram á ensku. Við brautskráningu hljóta nemendur meistaragráðu frá Háskólanum á Akureyri. Í dag eru virkir nemendur á fimmta tug talsins. Átta hafa nú þegar lokið námi. Auk þeirra hafa fjölmargir íslenskir og erlendir nemendur stundað skiptinám á Ísafirði, tekið eitt eða fleiri stök námskeið á meistarastigi.

Stærstur hluti nemenda í meistaranáminu kemur frá Norður-Ameríku, einkum Kanada. Þeir koma yfirleitt úr virtum háskólum erlendis og flytja því með sér mikla þekkingu til landsins. Flestir eru á þrítugsaldri og hafa mikinn áhuga á útivist og náttúru. Í hugum erlendra nema er staðsetning námsins, á Vestfjörðum, helsta aðdráttaraflið. Það höfðar til ákveðins hóps sem er að leita að öðruvísi lífi, fjarri skarkala stærri staða. Margir þeirra hafa áhuga á að skapa sér tækifæri á landsbyggðinni íslensku að námi loknu, einkum á Vestfjörðum, og fá tækifæri til að gefa af sér til íslensks samfélags. Nokkur hluti nemendahópsins er íslenskur, en nýliðun íslenskra nema hefur reyndar verið minni en vonir stóðu til. Eftir stendur að náminu hefur tekist ætlunarverk sitt, að laða til sín fjölbreytilegan hóp sterkra námsmanna. Hópi þessum fylgir mikill kraftur sem nærsamfélagið nýtur góðs af. Úr verður eins konar þekkingarvertíð.

En hvað kemur í kassann?

En er hagkvæmt að bjóða upp á háskólanám utan veggja stærstu háskóla landsins? Hví að bjóða upp á nám sem virðist fremur höfða til erlendra nemenda? Hvað græðum við á því? Þessum spurningum hefur reglulega verið velt upp. Starfsfólk Háskólasetursins fagnar þessari umræðu.

 

Eins og flestir vita er háskóli ekki tímabundinn geymslustaður fyrir fullorðið fólk, heldur staður til að uppfylla fyrirfram skilgreind akademísk markmið. Í metnaðarfullu þverfræðilegu háskólanámi á meðal annars að: 1) veita kennslu sem felur í sér ríkuleg tækifæri til að bæta eigin þekkingu og færni eftir því sem líður á námstímann, 2) stunda vandaðar rannsóknir, hvort sem er við skrifborð, á rannsóknarstofu eða á vettvangi, 3) fylla markvisst upp í þekkingareyður á viðkomandi sviði og 4) deila niðurstöðum rannsókna með umheiminum, helst í formi birtra greina í alþjóðlegum vísindatímaritum.

 

En háskóli, stór eða smár, er meira en umgjörð um fræði og þekkingarleit. Hann er líka samfélagsstoð. Velta má fyrir sér hvers virði háskólaeining er í litlu samfélag, þar sem við bætast önnur ytri áhrif (e. externalities), sem eru ekki jafn greinileg þegar háskóli er staðsettur í borg. Þetta geta verið mælanlegir og ómælanlegir þættir. Dæmi um hið fyrrnefnda er íbúafjölgun sem leiðir af sér efnahagslegan ábata í formi aukinnar eftirspurnar eftir leiguhúsnæði, þjónustu og neysluvarningi. Dæmi um hið síðarnefnda er bætt sjálfsmynd nærsamfélags og viskuviðbót (e. brain gain). Hvort tveggja á svo sannarlega við í þessu tilviki.

Nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun hafa gefið mikið til samfélagsins á norðanverðum Vestfjörðum, bæði sem einstaklingar og sem heild undir merkjum nemendafélagins Ægis. Þeir eru mjög virkir í sjálfboðastarfi, þjálfa heimamenn í íþróttum, sinna áhugamálum sínum og drífa aðra með, móta nýjar hefðir í útivist (hverjum hefði dottið í hug að stunda brimbrettasiglingar?), hvetja sveitunga sína til þess að endurvinna, huga að loftslagsmálum og standa jafnvel fyrir hreinsun strandlengjunnar með reglulegu millibili. Þeir aðstoða við smölun og önnur sveitastörf. Margir leggja stund á íslenskunám í kvöldskóla. Nemendafélagið Ægir hefur átt mikið og gott samstarf við grunnskóla á norðanverðum Vestfjörðum og má helst nefna afar vel heppnað námskeið um innleiðingu sjálfbærni í námsskrá grunnskóla sem haldið var sumarið 2010, sem og vitundarvakningu í grunnskólum um áhrif loftslagsbreytinga. Lengi mætti telja. Hin jákvæðu samfélagslegu áhrif þeirra tæplega 30 erlendu meistaranema sem búsettir eru í Ísafjarðarbæ verða þó líklega seint metin til fjár. En það kemur heilmikið í kassann.

 

Smátt getur verið skilvirkt

Oftast er álitið að smáar einingar séu óhagkvæmar og samlegð lítil. Þetta er þó ekki algilt, einkum þegar um er að ræða fólk en ekki dauða hluti. Í smærri háskólaeiningum getur oft falist mikill sjálfsagi, eftirfylgni, nýtni og skilvirkni. Í þannig umhverfi getur verið stóraukinn hvati hjá nemendum til að mæta í alla tíma, standa sig vel í námi og fylgja sínum árgangi til enda. Um 90 prósent þeirra nemenda sem hófu nám á fyrsta skólaári námsbrautar í haf- og strandsvæðastjórnun luku meistaranámi sínu á innan við tveimur árum, sem verður að teljast góð afköst í íslenskum samanburði. Brottfall er afar lítið og úrskráningar úr námskeiðum þekkjast varla. Brottfall nemenda og úrskráning úr stökum námskeiðum er vissulega sóun á vinnu kennara og nemanda. Sóun er því nær engin og skilvirkni mikil.

 

Staðsetning háskólanáms getur haft mikil áhrif á val lokaverkefna. Það er síður en svo sjálfgefið að erlendir nemendur á Íslandi kjósi að rannsaka íslensk viðfangsefni, einkum þegar skortur á grunnupplýsingum, aðgengi að þeim sem og tungumálahindranir eru hafðar í huga. En flestir nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun vilja rannsaka landið sem þeir stunda nám sitt í og leggja mikið á sig til að svo megi vera. Af þeim 20 lokaverkefnum sem nú eru í vinnslu bæta 15 þeirra (75 prósent) við íslenska vísindaþekkingu, einkum þekkingu um Vestfirði. Viðfangsefnin tengjast ýmist landi, grunnsævi eða hafi.

 

Þau fjalla til dæmis um:

  • nýtingu strandsvæða í sunnanverðu Ísafjarðardjúpi,
  • vistvæna strandferðamennsku á Vestfjörðum,
  • lífmælingar og mat á skólpmengun í Skutulsfirði,
  • möguleika til frístundaköfunar í Ísafjarðardjúpi,
  • lífsferilsgreiningu á leiðum til útflutings frosinna fiskafurða,
  • fiskeldi í íslenskum fjörðum og kröfur um umhverfismat,
  • kortlagningu þeirra stofnana sem fara með málefni haf- og strandsvæða á Íslandi,
  • viðbragðsáætlun vegna landgöngu hvítabjarna,
  • áhrif hækkunar sjávarmáls á eyrarsamfélög á Vestfjörðum,
  • og loks stökkbreyttar samgöngur á 20. öld og áhrif þess á vestfirskar strandbyggðir og eyjar.

 

Af nógu er að taka, enda eru risavaxnar eyður í þekkingu okkar, bæði á þessum stóra landshluta sem og því sem tengist stjórnun haf- og strandsvæða á landinu öllu.

 

Að fylla markvisst upp í þekkingareyður - og skapa verðmæti

Greinarhöfundur gerði lauslega athugun á háskólaritgerðum síðustu tíu ára. Sé leitarorðið „Vestfirðir" slegið inn í gagnagrunninn Gegni koma í ljós 21 lokaritgerðir á háskólastigi - eða að meðaltali tvær á ári. Allflestar þeirra fjalla ýmist um innflytjendur, snjóflóð, byggðarvanda eða jarðfræði Vestfjarðakjálkans. Á aðeins þremur árum hefur Háskólasetrið því raunhæfan möguleika á að jafna þennan núverandi fjölda háskólaritgerða um vestfirsk málefni og vel það. Ennfremur beinast rannsóknir nemenda í haf- og strandsvæðastjórnun að annars konar viðfangsefnum en áður hafa verið undir smásjá vísindanna; þekkingarleitinni er beint á nýjar brautir.

 

Margt er órannsakað á sviði haf- og strandsvæðastjórnunar. Auk listans hér að ofan má nefna sjálfbærni sjávarsamfélaga í breyttum heimi, ógnanir og tækifæri samfara nýjum siglingaleiðum og vöruflutningum um norðurhöf, orkuútflutning um sæstreng, olíuleit á hafsvæðum nálægt Íslandi og loks allt sem möguleg aðild Íslands að ríkjasambandi, svo sem ESB, fæli í sér gagnvart stjórnun og skipulagi íslenskra haf- og strandsvæða.

 

Mikilvægt er að halda áfram á þessari góðu braut sem mörkuð hefur verið. Þá bætum við markvisst í kassa íslenskrar vísindaþekkingar - og allir vinna.

 

Höfundur er fagstjóri meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.