miðvikudagur 11. febrúar 2015

Það var allt á floti allsstaðar

Vísindaport vorsins byrjar föstudaginn 13.02.2015 með vangaveltur um vatnsflóðin á Ísafirði. 

 

Komi til vatnsflóða líkt og gerðist á Ísafirði sunnudaginn 8. febrúar sl. er  mikilvægt að allir sem vettlingi geta valdið bregðist hratt við til að draga úr tjóni af völdum flóðanna.

 

Fjölmargir stóðu í ströngu við  björgun verðmæta þegar holræsakerfi yfirfylltust vegna mikillar úrkomu og leysinga úr fjallinu fyrir ofan bæinn. Niðurföll fylltust og flæddi því vatn upp úr holræsakerfinu. Björgunaraðgerðir fólust m.a. í því að koma fyrir öflugum vatnsdælum og notkun sandpoka til að beina vatni frá húsum og öðrum mannvirkjum.

 

Meðal þeirra sem stóðu vaktina og aðstoðuðu bæjarbúa við björgun var starfsfólk Ísafjarðarbæjar, slökkvilið og lögregla,  ásamt björgunarsveitum þar sem fjölmargir kjallarar fylltust af vatni. Margvíslegar bjargir í samfélaginu voru virkjaðar þennan sunnudag og mættu bændur m.a. með haugsugur og dráttavélar til að dæla vatni af fótboltavellinum.

 

Í Vísindaportinu mun Herdís Sigurjónsdóttir sem er sem stendur gestakennari við Haf- og strandsvæðastjórnun velta upp atburðum sunnudagsins. Ætlar hún að lýsa sinni upplifun á viðbrögðunum og opna umræðu meðal íbúa um það hvernig hægt er að nýta atburðinn til að búa samfélagið betur undir áskoranir í framtíðinni í líkingu við vatnsflauminn úr hlíðinni. Mikilvægt er að vita hvort hægt er að gera betur?

 

Vísindaport er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs. Erindið mun fara fram á íslensku.


Herdís Sigurjónsdóttir kennari Í Haf- og strandsvæðastjórnun kemur í Vísindaport
Herdís Sigurjónsdóttir kennari Í Haf- og strandsvæðastjórnun kemur í Vísindaport