Tengslanet og frumkvöðlar í ferðaþjónustu
Í Vísindaporti föstudaginn 1. nóvember mun Íris Hrund Halldórsdóttir kynna niðurstöður rannsóknar sinnar fyrir M.Sc. próf úr ferðamálafræði við Háskóla Íslands þar sem rannsakað var hvort þættir í menningar- og félagslegu nærumhverfi frumkvöðlafyrirtækja í ferðaþjónustu hafi áhrif á tilurð og framgang þeirra.
Frumkvöðlar eru taldir vera mikilvægur þáttur í efnahagslegri uppbyggingu dreifbýlis. Því þarf að leggja sérstaka áherslu á að búa þeim þannig umhverfi að þeir nái að blómstra. Gott frumkvöðlaumhverfi veitir þeim stuðning og hvatningu til þess að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Gerð var þátttökuathugun í tveimur byggðarlögum á Vestfjörðum þar sem skoðuð voru tvö ferðaþjónustufyrirtæki sem voru að slíta barnskónum; annars vegar Sjóræningjahúsið á Patreksfirði og hins vegar Melrakkasetrið í Súðavík.
Niðurstöður sýna að ýmsir þættir skipta máli og geta haft áhrif á aðstandendur fyrirtækjanna og uppbyggingu þeirra, svo sem sjálfsemd staða (e.place identity) og þau félagslegu tengslanet (e.social networks) sem þeir voru hluti af eða stofnuðu til á uppbyggingartímanum. Niðurstöður sýna einnig að með því að hafa í huga hið félags- og menningarlega nærumhverfi frumkvöðlafyrirtækja þá fæst aukinn skilningur á breytileika hins félagslega fyrirbæris sem frumkvöðulsháttur er.
Íris Hrund Halldórsdóttir er Hnífsdælingur og bjó þar fyrstu 22 ár ævi sinnar. Hún útskrifaðist árið 2000 sem rekstrarfræðingur frá Tækniháskóla Íslands og árið 2008 sem leiðsögumaður frá Ferðamálaskólanum í Kópavogi. Í framhaldsnámi sínu í ferðamálafræði starfaði hún hjá Rannsókna- og fræðasetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum við vinnu á rannsókn sinni og öðrum rannsóknum tengdum ferðamálum.
Vísindaport er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.