föstudagur 24. ágúst 2007

Sumarháskóli í íslensku á háskólastigi

Prógram námsmannanna er stíft, enda er kennt í 60 tíma á tveimur vikum. Ofan á það bætast skoðunarferðir og fyrirlestrar. Síðasta þriðjudag hélt Sigurður Pétursson til dæmis fyrirlestur um fólk og fisk í þúsund ár og eftir viku mun Jónas Tómasson kynna nútímatónlist og tónlistarbæinn Ísafjörð undir yfirskriftinni “Tónlist hér og nú”.

Kennari á námskeiðinu er Elsa Björg Diðriksdóttir, sem hefur kennt við Háskólana í Kiel og Rendsburg. Nemendurnir eru ótrúlega áhugasamir, sumir hverjir með málvísindalegan bakgrunn, og þeim líst greinilega vel á dvöl sína hér á Ísafirði ef marka má viðbrögðin á Facebook vefsvæðinu.

Um helgina fara námsmennirnir á slóðir Gísla sögu og sjá einleikinn um Gísla eftir Elfar Loga Hannesson. Námskeiðið stendur til fyrsta september.

Þetta er síðasti hópurinn sem er hér í sumar, áður voru hér hópar frá Sterling College í maí, frá Háskólanum í Manitoba í júní og frá School for International Training í júlí. Allir skólarnir hafa lýst yfir áhuga á að koma aftur og einn skóli er meira að segja búinn að taka frá tíma á næsta ári. Það er því síður en svo að sumarið sé daufur tími hjá Háskólasetrinu.

Nemendur og kennari í Íslensku
Nemendur og kennari í Íslensku