miðvikudagur 28. janúar 2009

Strendur og óveður: Atlantshafsstrandlengja Kanada

Í fyrirlestri sínum í Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða mun prófessor Norm R. Catto fjalla um Atlantshafsstrandlengju Kanada í tengslum við óveður, hækkandi sjávarborð og ýmiskonar mannlega starfsemi. Fyrirlesturinn fer fram á ensku.

Í samspili við þessa margvíslegu álagsþætti eru strandlengjur kvikar og síbreytilegar, bæði hvað lögun þeirra og áferð botnlags varðar. Breytingarnar hafa ekki aðeins áhrif á landslagið, heldur jafnfram á notkun manna, þar með talið viðhald á mannvirkjum, skipulag byggðar og ferðamennsku svo fátt eitt sé nefnt. Yfirstandandi rannsóknir gefa okkur möguleika á að skilja tengslin á milli þeirra þátta sem valda breytingum á strandsvæðakerfum.

Norm R. Catto er prófessor í landafræði við Memorial háskólann á Nýfundnalandi. Hann kennir nú námskeiðið Climate changes and policy, í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Nánari upplýsingar um námskeiðið og prófessor Catto, má nálgast á heimasíðu námskeiðsins.

Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum. Þar er fjallað í stuttu máli, 20-30 mínútur, um yfirstandandi rannsóknir eða rannsóknir sem er lokið og svo er orðið gefið laust. Vísindaportið hefst kl 12.10 og fer fram í kaffisal Háskólaseturs Vestfjarða. Allir eru velkomnir.

Prófessor Norm R. Catto
Prófessor Norm R. Catto