föstudagur 19. ágúst 2022

Stofnfundur Stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða

Stjórn Háskólaseturs Vestfjarða hefur ákveðið að setja á stofn húsnæðissjálfseignarstofnun vegna byggingar stúdentagarða fyrir Háskólasetrið.

 

Boðaður stofnfundur fór fram á þriðjudaginn 16. ágúst. Húsnæðissjálfseignarstofnunin mun sinna byggingarframkvæmd og rekstri nýrra leiguíbúða fyrir námsmenn. Háskólasetur Vestfjarða er eini stofnaðilinn og leggur fram 1 milljón kr. í stofnfé. Háskólasetrið hefur tilnefnt í fulltrúaráð stofnunarinnar 8 fulltrúa af Vestfjörðum sem hafa fjölbreyttan bakgrunn, enda var lögð áhersla á að hafa breiðan hóp úr samfélaginu í fulltrúaráði. Þar að auki voru tilnefndir 4 fulltrúar íbúa sem eru nemendur eða fv. nemendur við Háskólasetur Vestfjarða. Í stjórn nýrrar húsnæðissjálfseignarstofnunar sitja: Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkaþörungafélagsins, -fyrrverandi stjórnarformaður Háskólaseturs Vestfjarða og fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðarstofu og Hildur Dagbjört Arnardóttir landslagsarkítekt. Varamaður í stjórn er Karl Ásgeirsson, Skaginn3x.

 

Á stofnfundinum kom fram að húsnæðisskortur á Ísafirði er orðinn að flöskuhálsi sem gæti hamlað frekari þróun í starfsemi Háskólasetursins og var því að tilstuðlan Vestfjarðarstofu unnið að umsókn um stofnframlag til byggingar nýrra íbúða.

 

Það var Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða sem hefur haft veg og vanda að undirbúningi við stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunarinnar sem setti fundinn. Elías Jónatansson, formaður stjórnar Háskólasetursins fór yfir aðdraganda verkefnisins f.h. stjórnar Háskólaseturs Vestfjarða og stýrði fundi.

 

Lynnee Jacks, fyrrverandi námsmaður sem situr í fulltrúaráði fyrir íbúa/nemendur, fór yfir niðurstöður könnunar sem hún lagði fyrir nemendur um hvers þau óskuðu sér af nýju leiguíbúðunum. Þar kom fram að það sem þeim fannst mikilvægast var viðráðanlegt verð, en þar á eftir kom góð eldhús aðstaða og gott geymslupláss. Þeim fannst einnig mikilvægt að fá að vera partur af samfélaginu og að íbúðirnar yrðu byggðar með það að leiðarljós og, að almenningur hefði gott aðgengi að þeim utan frá og íbúðirnar yrðu ekki afgirtar. Það er einmitt hugmynd arkítekta með því að framlengja Aðalstrætið út fyrir Fjarðarstrætið í gegnum stúdentagarðana alla leið að göngustígnum við fjöruborðið á norðanverðri Eyrinni. Einnig töluðu nemendurnir um að þau vildu að húsið félli vel inn í umhverfið og stakk Lynnee upp á að húsið yrði í stíl við gömlu litríku húsin á Eyrinni.

 

Umsókn Háskólaseturs Vestfjarða um stofnframlag hefur verið samþykkt af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, en samþykkt var að veita 18% stofnframlag, 4% viðbótarframlag og sérstakt byggðarframlag. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar þessari uppbyggingu og hefur ákveðið að sveitarfélagið mun einnig styrkja bygginguna með úthlutun stofnframlags. Þessi framlög frá opinberum aðilum skipta sköpum fyrir velgengi þessa mikilvæga verkefnis.

 

Það er ljóst að mikil þörf er á leiguhúsnæði fyrir nemendur í Ísafjarðarbæ en samkvæmt húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar eru nú þegar 70 manns á biðlista eftir leiguhúsnæði fyrir námsmenn. Íbúðirnar verða 40 talsins og munu því anna stórum hluta núverandi eftirspurnar. Reiknað er með að á hverjum tíma verði um 75-80 nemendur búsettir á Ísafirði, en Háskólasetrið náði þessum fjölda í fyrra í fyrsta skipti. Björtustu vonir gera ráð fyrir að um 13 mánuðir líði frá upphafi framkvæmda og þar til íbúðir verða teknar í notkun. Heildarverktími ræðst hins vegar einnig af því hversu hönnunarvinna gengur hratt og vel fyrir sig, þannig að of snemmt er að segja til um það nákvæmlega hvenær verkinu lýkur. Nýrrar stjórnar bíður því ærið og mikilvægt starf.

 


Loftmynd úr suðvestri (koa arkitektar)
Loftmynd úr suðvestri (koa arkitektar)