þriðjudagur 23. maí 2017

Stelpur og tækni

Um 30 stelpur úr öllum 9. bekkjum grunnskólanna á norðanverðum Vestfjörðum hafa í dag tekið þátt í verkefni á Ísafirði á vegum Háskólans í Reykjavík sem kallast „Stelpur og tækni“. Verkefnið fer m.a. fram í Háskólasetri Vestfjarða í tengslum við alþjóðlegan dag stelpna í tækni, „Girls in ICT Day“ en sá dagur var haldinn hátíðlegur í þriðja sinn um heim allan í apríl s.l.

Vestfirsku stelpurnar sækja vinnustofur þar sem þær leysa ýmsar tækniþrautir, heimsækja fyrirtæki á svæðinu og fá þannig að skyggnast inn í heillandi heim tækninnar. Markmiðið er að vekja áhuga stelpnanna á fjölbreyttum möguleikum í tækninámi og störfum, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tæknigeiranum og brjóta niður staðalímyndir.

Innan HR eru starfrækt samtök sem kallast /sys/tur en í þeim eru stelpur sem stunda tölvunarfræðinám við skólann. Það eru einmitt fulltrúar úr samtökunum sem halda utan um vinnustofurnar ásamt fulltrúum frá Skema, fyrirtæki sem sérhæfir sig í menntun í takt við tækniþróun með sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði að leiðarljósi.

Um 400 stelpur úr grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í þessu verkefni í HR fyrir stuttu en nú er dagurinn jafnframt haldinn á Austurlandi, á Akureyri og hér á Ísafirði.

Háskólasetur Vestfjarða bauð hópinn velkominn í morgun en Háskólasetrið leggur verkefninu lið með því að bjóða húsakynni til afnota fyrir vinnustofurnar. Að þeim loknum heimsækja stelpurnar svo hátæknifyrirtækið Skaginn 3X á Ísafirði.


Hluti stelpnanna úr 9. bekkjum á norðanverðum Vestfjörðum niðursokknar í tölvuna í vinnustofunni í Háskólasetrinu í morgun á vegum verkefnisins
Hluti stelpnanna úr 9. bekkjum á norðanverðum Vestfjörðum niðursokknar í tölvuna í vinnustofunni í Háskólasetrinu í morgun á vegum verkefnisins "Stelpur og tækni".