þriðjudagur 3. júní 2014

Starfsnemar frá GÍ í heimsókn

Þessa dagana sækja nemendur 10. bekkjar Grunnskólans á Ísafirði starfskynningar í ýmsum fyrirtækjum og stofnunum í Ísafjarðarbæ. Í dag heimsótti Ingunn Rós Kristjánsdóttir nemandi í 10. bekk GÍ Háskólasetrið og kynntist starfseminni þess frá ýmsum hliðum.

Ingunn Rós kynntist undirbúningi íslenskunámskeiðanna sem hefjast í ágúst, NAFA kvikmyndahátíðinni sem hefst á morgun, móttöku SIT vettvangsskólans síðar í sumar auk þess að fá stutta kynningu á vef Háskólaseturs, fréttaskrifum og öðru sem tengist vefnum. Á sama tíma var annar nemandi 10. bekkjar, Hafdís Haraldsdóttir, í starfskynningu hér í húsinu hjá Hafrannsóknarstofnun. Hafdís fór til Bolungarvíkur snemma morguns og fylgdi starfsmönnum Hafró í sýnatöku þar og fræddist um starfsemi Hafró á Ísafirði.

„Heimsóknin hefur verið mjög skemmtileg og fræðandi um starfið sem hér fer fram. Allir starfsmenn og nemendur eru líka mjög vingjarnlegir og þetta er allt saman mjög spennandi,“ sagði Ingunn í lok dags og bætti því við að hún gæti alveg hugsað sér að vinna á svona vinnustað í framtíðinni.

Starfskynningarnar veita nemendum tækifæri til að kynnast ýmsum atvinnugreinum áður en þeir ljúka grunnskóla og e.t.v. kynnast störfum sem þeir hafa áhuga á og geta beint námi sínu að í framtíðinni. Hver veit nema þær stöllur Ingunn og Hafdís hafi fundið framtíðarstarfsvettvanga sína í dag?