fimmtudagur 29. mars 2012

Staðartengsl og staðarvitund í samhengi við búsetuval

Föstudaginn 27. mars mun Albertína Friðbjörg Elíasdóttir kynna rannsókn sem hún vann í tengslum við meistararitgerð sína í Vísindaporti, en þessa dagana vinnur Albertína að því að ljúka smíði ritgerðarinnar. Ritgerðin er skrifuð í landfræði við Háskóla Íslands.

Búsetuþróun á Íslandi hefur verið mörgum umhugsunarefni í gegnum árin. Fjöldi rannsókna hafa verið gerðar á orsökum mikilla búferlaflutninga til Suðvesturhornsins. Rannsóknir hafa þannig sýnt að fólk sækist eftir ákveðnum búsetuskilyrðum sem það telur sig finna á höfuðborgarsvæðinu. Lítið hefur hins vegar verið rannsakað af hverju fólk flytur ekki og sömuleiðis af hverju fólk flytur til landsbyggðanna. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka einmitt þessa þætti með því að skoða staðartengsl og staðarvitund meðal núverandi og fyrrverandi íbúa á Ísafirði. Rannsóknaraðferðin var eigindleg og byggir á viðtölum við þrettán einstaklinga sem eru búsettir eða hafa verið búsettir á Ísafirði.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að viðmælendur hafa nokkuð svipuð staðartengsl, en hins vegar er staðarvitund sterkari meðal heimamanna og brottfluttra en aðfluttra. Nokkur munur er á við hvað viðmælendur tengja sig þar sem heimamenn eru líklegri til að tengja sig við náttúruna á meðan aðfluttir eru líklegri til að tengja sig við samfélagið. Niðurstöðurnar sýna að íbúar mynda sterk tengsl við Ísafjörð. Rannsóknin veitir innsýn í nýja tegund búseturannsókna á Íslandi og veitir dýpri innsýn í upplifun íbúa í litlum bæ af tengslum sínum við staðinn en fyrri rannsóknir á Íslandi hafa gert.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir lauk BA gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og stefnir nú að því að ljúka MA gráðu í landfræði frá sama skóla í vor.

Visindaportið er öllum opið, hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs. Að þessu sinni mun fyrirlesturinn fara fram á ensku.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir