Spennandi nýsköpunarnámskeið í samvinnu við vestfirsk fyrirtæki
Ný námskeið eru nú að hefja göngu sína við Háskólasetur Vestfjarða sem marka tímamót í starfsemi setursins. Um er að ræða hagnýt námskeið í sjávartengdri nýsköpun sem ætlað er að tengja saman nýsköpun í atvinnulífi á Vestfjörðum og háskólasamfélagið með markvissari hætti. Námskeiðin fara fram á þremur svæðum Vestfjarða; fyrsta námskeiðið hefst í þessari viku og fer fram á Ísafirði. Næstu námskeið fara svo fram á Tálknafirði og Reykhólum á nýju ári.
Markhópur námskeiðanna er einkum meistaranemar í tengdu námi, s.s. sjávartengdri nýsköpun ásamt haf- og strandsvæðastjórnun, auk þátttakenda úr þeim geirum atvinnulífsins sem tengjast efni námskeiðanna. Námskeiðin eru þó í boði öllum þeim sem áhuga hafa og búa yfir tilskilinni menntun eða reynslu. Kennarar koma úr ýmsum áttu, jafnt innlendir sem erlendir.
Námskeiðin eru stutt og standa ýmist í eina eða tvær vikur. Það fyrsta hófst á Ísafirði í dag og stendur til 22. nóvember. Það ber yfirskriftina „ Nýsköpun og sjálfbærni í strandferðaþjónusta “ og eru tíu nemendur nú skráðir þátttakendur. Kennararnir eru þau Rodrigo Menafra frá Kanada, sem er sérfræðingur á sviði hafverndar hjá Canadian Parks and Wilderness Society, og Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá Impru - Nýsköpunarmiðstöð. Ýmis vestfirsk fyrirtæki verða heimsótt á námskeiðinu og nemendur kynnast einstaklingum sem hafa haslað sér völl með nýjar hugmyndir, t.a.m. í ferðaþjónustu. Má þar nefna Borea Adventures, Vesturferðir, Fisherman á Suðureyri og Helgu Hausner, leiðsögumann. Nemendanna bíða því tvær spennandi vikur af hagnýtum vettvangsferðum í bland við fræðilega leiðsögn sérfræðinga.
Á öðru námskeiðinu, sem fram fer á Tálknafirði dagana 21.-28. mars 2015 undir heitinu „Nýsköpun í fiskeldi“ kenna þau Peter Krost og Maríu Maack. Peter er stundakennari við Háskólann í Kiel, þar sem hann kennir m.a. fiskeldis- og sjávarlífræði og rekur eigið eldisfyrirtæki, en María er um þessar mundir að klára doktorsnám í visthagfræði við Háskóla Íslands.
Þriðja námskeiðið verður haldið á Reykhólum í dymbilvikunni í beinu framhaldi af námskeiðinu á Tálknafirði. Yfirskrift þess námskeiðs er „Nýting hafsins – Nýsköpun og sjálfbærni “ og þar eru kennararnir einnig þau Peter Krost og María Maack.
Námskeiðin eru haldin í nánu samstarfi við atvinnulífið á Vestfjörðum, einkum þau fyrirtæki sem með nýsköpun eru að hasla sér völl í atvinnugreinum á borð við fiskeldi og ferðaþjónustu. Nemendum gefst kostur á að kynna sér starfssemi þeirra af eigin raun samhliða bóklega náminu. Hefðbundnu námi er þó haldið í lágmarki og er gert ráð fyrir að fyrirlestrar séu einungis lítill þáttur af heildarnáminu. Þess í stað er lögð rík áhersla á fyrirtækjaheimsóknir, raundæmi, hópavinnu og einstaklingsvinnu með leiðbeinendum.
Markmiðið með námskeiðunum er að nemendur öðlist færni í að beita aðferðum og verklagi sem getur leitt til nýsköpunar. Mikilvægt er að veita nemendum svigrúm til að beita nýjum aðferðum og áður óþekktu verklagi samhliða því að beina þeim inn á brautir sem gagnast í slíkum tilraunum. Í lok námskeiðanna eiga nemendur að hafa öðlast góða tilfinningu fyrir eigin styrkleikum og takmörkunum í nýsköpun og fundið leiðir til að vinna sem best úr þeim. Verkefnið hlaut styrk úr sjóði Sóknaráætlunar landshluta fyrir árið 2013 sem og frá VaxVest.