fimmtudagur 20. janúar 2011

Sólarlitlir dagar í Vísindaporti

Sólarlitlir dagar - tími dauðamannanna Axlar-Bjarnar, Sveins skotta og Gísla hróks

Komedíuleikhúsið á Ísafirði, í samvinnu við Lýðveldisleikhúsið, hefur að nýju sýningar á leikritinu Síðasti dagur Sveins skotta sem frumsýnt var á síðasta leikári. Af þessu tilefni mun Benóný Ægisson, höfundur verksins, fjalla um eina umdeildustu langfeðga Íslandssögunnar þá Björn Pétursson, jafnan nefndur Axlar Björn, son hans Svein „skotta" og Gísla „hrók", son Sveins. Í erindi sínu mun Benóný taka fyrir tímana sem þeir langfeðgar lifðu, menninguna, siðaskiptin, upplýsinguna, glæpina, galdrafárið og það hvernig gleðin var markvisst barin niður í þjóðfélaginu.

Vísindaportið fer fram föstudaginn 21. janúar í kaffisal Háskólaseturs og hefst kl. 12.10 stundvíslega, allir velkomnir. Sýningar á leikritinu fara fram í Edinborgarhúsinu dagana 21. og 22. janúar en auk þess verður verkið sýnt í hinu nýuppgerða leikhúsi við tjörnina í Reykjavík, Tjarnarbíó dagna 27.-28. janúar. Nánari upplýsingar má nálgast á vef Kómedíuleikhússins.

Úr leiksýningunni Síðasti dagur Sveins skotta sem verður aftur á fjölunum á Ísafirði um helgina og í Reykjavík um næstu helgi.
Úr leiksýningunni Síðasti dagur Sveins skotta sem verður aftur á fjölunum á Ísafirði um helgina og í Reykjavík um næstu helgi.