miðvikudagur 17. september 2014

Sókn Sjávarbyggða. Hver er framtíðin? Koma konurnar?

Háskólasetur Vestfjarða, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Byggðastofnun og Vesturbyggð standa að ráðstefnu um byggðatengd málefni undir yfirskriftinni Sókn sjávarbygða. Hver er framtíðin? Koma konurnar?

 

Aðsókn að ráðstefnunni er ágæt. Heimamenn sem aðeins vilja hlýða á fyrirlestrana geta gert það án þess að greiða skráningargjald.

Ennþá er þó hægt að skrá sig á ráðstefnuna og er skráningargjaldið 15.000 kr.  Innifalið í skráningargjaldinu er m.a matur og kynnisferð í fyrirtæki á svæðinu ásamt málstofum og umræðum.

 



Á dagskrá eru rúmlega 20 áhugaverð erindi frá fræðimönnum, stefnumótendum og þeim sem vinna á vettvangi um stöðu og þróun byggðar.

Byggðaráðstefnu Íslands er ætlað að vera vettvangur nýrra rannsókna, reynslu af hagnýtu starfi og umræðu um stefnumótun í sjórnsýslu og stjórnmálum. Ráðstefnan er haldin á landsbyggð til að veita þátttakendum innsýn í lífskjör heimamanna og þær áskoranir og þau tækifæri sem þeir standa frammi fyrir.

 

Sjávarbyggðir eru ungt fyrirbæri í Íslandssögunni. Þær hafa vaxið hratt frá byrjun 20. aldar í kringum veiðar og vinnslu og vegna nálægðar við fiskimiðin, en margar eiga nú, hundrað árum seinna, í vök að verjast. Hver er framtíð þeirra?


Að mörgu leyti merkjum við í dag breytingar í sjávarbyggðum. Sumar verða svefn­bæir, aðrar byggjast upp með ferðamennsku, með nýrri stóriðju eða í kring um fiskeldi. Á stöku stað koma fram sprotafyrirtæki. Aðrar virðast að fölna.

Í alþjóðlegum rannsóknum hefur margoft komið fram að konur eru fyrstar til að flytja frá jaðarsvæðum. Eins og er virðist vera erfiðast að sannfæra konur um að flytja í sjávarbyggðir þrátt fyrir nýja sókn og uppgang á ýmsum stöðum. Ef svo er, hvaða ástæður liggja þar að baki? Er hægt að hafa áhrif á þessar ástæður? Er það ímyndarvandamál sem sjávarbyggðir glíma við?