miðvikudagur 11. apríl 2012

Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf

Í dag heimsóttu Háskólasetrið sex meistaranemar við námsbrautina Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf við Tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Nemendurnir dvelja þessa dagana á Ísafirði og vinna að verkefnum undir leiðsögn Hilmars Þórðarssonar tónskálds með aðstöðu í Tónlistaskóla Ísafjarðar.

Námsbrautin Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf er samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og nokkurra evrópskra háskóla, en Tónlistaskóli Ísafjarðar og Háskólasetrið eru samstarfsaðilar Listaháskólans í verkefninu hér á landi. Námið gengur út á að veita tónlistarmönnum aukna þjálfun í hagnýtingu listnáms þeirr, með margvíslegri nýsköpun sem getur leitt til atvinnusköpunar.

Þess má geta að á vordögum árið 2008 fundaði hópur tuttugu og tveggja fulltrúa listaháskóla frá Evrópu á Ísafirði þegar undirbúningur þessarar sameiginlegu námsbrautar stóð yfir eins og fjallað var um hér á vefnum þá.