mánudagur 10. september 2012

Skólastarf hjá fjarnemum komið á fullt skrið

Mikið líf og fjör er nú í Háskólasetrinu. En um leið og skólastarf hefst í háskólunum fara nemendur að flykkjast í húsið. Sumir nemarnir sækja tíma í gegnum fjarfundarbúnað hér í setrinu og eins eru margir sem nota vinnuaðstöðuna hér til lærdóms.

Nokkuð ber á stórum hópi hjúkrunarfræðinema, en 14 nemendur hefja nú nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Kennslan fer fram í gegnum fjarfundarbúnað, alla virka morgna. Margar og mismunandi greinar eru kenndar hér alla daga, en fjarnemendur á Vestfjörðum eru m.a. að læra sálfræði, uppeldisfræði, stjórnun, viðskiptafræði, þroskaþjálfafræði, iðjuþjálfun, sjávarútvegsfræði, þjóðfræði, mannfræði, safnafræði og stjórnsýslufræði svo eitthvað sé nefnt. Flestir fjarnemar hér nema við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands, en hér eru líka nemendur sem stunda nám sitt við Háskólanum á Bifröst, Landbúnaðarháskólanum, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Hólum.

Háskólasetrið tók nú upp á þeirri nýjung að bjóða nú upp á námstækninámskeið fyrir fjarnema og hófst það síðast liðinn fimmtudag. Góð mæting er á námskeiðið sem kennt verður næstu fimmtudaga. Vert er að nota tækifærið og minna á að við Háskólasetur er starfandi náms- og starfsráðgjafi og býðst öllum fjarnemum að nota hans þjónustu.

Hluti af nemendum í hjúkrunarfræði
Hluti af nemendum í hjúkrunarfræði