miðvikudagur 19. nóvember 2008

Skólahald að Núpi, ris og fall á árunum 1907-1992

Í Vísindaporti föstudaginn 21. nóvember mun Aðalsteinn Eiríksson fjalla um sögu skólahalds að Núpi í Dýrafirði. Aðalsteinn hófst nýlega handa við að rannsaka þá sögu en til stendur að hann riti sögu Ungmennaskólans að Núpi sem síðar varð Héraðsskólinn að Núpi, ris og fall á árunum 1907-1992.


Rannsóknir þessu til grundvallar munu m.a. beinast að félagslegum þáttum, þróun uppeldis- og kennslufræða, jafnréttismála og ýmissa hreyfinga „aldamótakynslóðarinnar". Var skólinn afsprengi samtíðarinnar, eða mótandi afl? Hvaða öfl slógu taktinn?


Aðalsteinn Eiríksson, er fæddur og uppalinn á Núpi, hóf kennsluferil sinn þar veturinn 1960-61 en kenndi síðan lengst við Kvennaskólann í Reykjavík þar sem hann var skólameistari 1982-1998. Síðast var hann starfsmaður Menntamálaráðuneytisins 1998-2007, m.a. deildarstjóri framhaldsskóladeildar. Hann er nú kominn á eftirlaun.


Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum og hefst stundvíslega kl. 12.10. Þar er fjallað í stuttu máli, 15-20 mínútum, um yfirstandandi rannsóknir eða rannsóknir sem er lokið og svo er orðið gefið laust. Vísindaportið fer fram í kaffisal Háskólaseturs Vestfjarða og eru allir velkomnir.