fimmtudagur 18. maí 2017

Skoðanakönnun: Menning við sjávarsíðuna og staðarvitund

Hvernig tölum við um hafið? Hvernig horfir hafið við okkur á tímum ferðamennsku og fiskeldis? Kemur hafið fyrir í kennsluskrám skóla? Eru svörin við þessum spurningum ólík í mismunandi löndum, eða er þetta svipað um allan heim?

Þessar spurningar eru meðal þess sem fengist er við í rannsóknarverkefni Háskólans í Brest á vestur Bretagne-skaga (Université de Bretagne Occidentale). Háskólasetur Vestfjarða er samstarfsaðili í verkefninu ásamt háskólum í Finnlandi, Frakklandi og Ástralíu. Heiti rannsóknarverkefnis er ”Discours sur la mer, Resistances de Pratiques” eða ”Thinking the Sea in the Global World, Discourses and Practices.”

Spurningakönnun er lögð fyrir í öllum þátttökulöndunum og munu svörin varpa ljósi á þessar spurningar. Könnunin er eins í löndunum öllum en segja má að tilraunir til að samræma þýðingarnar hafi leitt í ljós að verulegur munur er á viðhorfum til sjávar á milli landa og menningarheima. Þetta mun væntanlega ekki leyna sér fyrir Íslendingum sem taka þátt í könnuninni. Það ætti ekki að taka meira en 10 mínútur að svara könnuninni og er hún aðgengileg á vefsvæði Háskólans í Brest.

Á síðasta ári var haldin ráðstefna í Brest sem Jennifer Smith tók þátt í fyrir hönd Háskólaseturs Vestfjarða. Í nóvember á þessu ári fer svo fram önnur ráðstefna í Brest þar sem sérstaklega verður fjallað um breytt viðhorf í garð hafsins. Slíkar viðhorfsbreytingar má finna á Íslandi þótt þær kunni að vera ólíkar því sem t.d. gerist á Bretagne-skaga þar sem ferðamennskan er orðin mun mikilvægari en sjávarútvegur.

Tengsl fólks við hafið hér á landi hafa þó breytast eins og víðast hvar annarstaðar. Í umræðunni eru t.d. strandveiðar sem er ætlað að hleypa nýjum aðilum inn í greinina. Fiskneysla og matreiðsla á fiski fer minnkandi meðal ungs fólks á sama tíma og gert er út á sjávarfang í veitingageiranum. Þótt sjómannsstarfið sé vissulega enn hættulegt hefur alvarlegum sjóslysum fækkað en á sama tíma er umræða um hættur sem stafa að ferðamönnum á vinsælum stöðum við ströndina á borð við Reynisfjöru. Umræðan hefur snúist um fisk og kvóta en kann að færast yfir á t.d. mengun, eldi og útsýni.

Með þessu rannsóknarverkefni er verið að nálgast þessi viðfangsefni og könnunin sem hér fylgir er eitt fyrsta skrefið í þá átt.

Hér er hlekkur á könnunina.


Tengsl okkar við hafið taka breytingum í áranna rás. Rannsóknarverkefninu er ætlað að menningu við sjávarsíðuna og staðarvitund. Myndin er frá Drangsnesi. Ljósmynd: Ágúst Atlason.
Tengsl okkar við hafið taka breytingum í áranna rás. Rannsóknarverkefninu er ætlað að menningu við sjávarsíðuna og staðarvitund. Myndin er frá Drangsnesi. Ljósmynd: Ágúst Atlason.