mánudagur 15. febrúar 2010

Skipulagsnámskeið í kjölfar vistfræðinámskeiðs

Eftir þriggja vikna námskeið um vistfræði hafs og strandsvæða hjá Guðbjörgu Ástu Ólafsdóttur, Rannsóknarsetri Háskóla Íslands í Bolungarvík, tekur nú við þriggja vikna námskeiðið Planning of Coastal and Marine Regions, sem Morten Edvardsen, prófessor í skipulagi þétt- og strjálbýlis við háskólann í lífsvísindum í Ási í Noregi kennir.

Efnistök vistfræðinámskeiðsins voru fjölbreytt eins og efni námsmannakynninga, sem fram fóru í síðustu viku, leiða í ljós: Marglittur sem ráðast inn á ný svæði; flókin samsetning kóralrifja; lögun sjávarbotnsins; sjávarotrar á Aleut-eyjum sem hornsteinn í vistkerfi; inngrip í genamengi tegunda til að viðhalda stofnum; áhrif kjölvatns á vistkerfi og margt fleira. En nú þurfa nemendur sem sagt að taka fram landakortin, enda skipulag strandsvæða framundan.

Prófessor Morten Edvardsen kenndi skipulagsnámskeiðið einnig í fyrra. Það er afar jákvætt fyrir námsleiðina í haf- og strandsvæðastjórnun hve margir kennarar eru reiðubúnir að koma aftur á Ísafjörð og taka þátt í uppbyggingu námsleiðarinnar. Efni námskeiðsins um skipulag strandsvæða er nátengt rannsóknarverkefni um Nýtingaráætlun strandsvæða, sem Fjórðungssamband Vestfirðinga, Háskólasetur og Teiknistofa Eik, hafa hrundið í framkvæmd. Því má segja að námskeiði og rannsóknarverkefnið styðji vel við hvort annað.

Prófessor Morten Edvardsen kennir nú námskeiðið Planning of Coastal and Marine Regions öðru sinni við Háskólasetrið.
Prófessor Morten Edvardsen kennir nú námskeiðið Planning of Coastal and Marine Regions öðru sinni við Háskólasetrið.