þriðjudagur 25. janúar 2011

Skipulag strandsvæða og úrlausn ágreiningsmála

Frá og með þessari viku verða tvö valnámskeið í boði í hverri þriggja vikna lotu meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun. Nemendur munu því héðan af geta valið annað af tveimur valnámskeiðum sem verða í boði fram á sumarönn.

Námskeiðin sem fara fram í þessari viku fjalla um tvö mikilvæg málefni í haf- og strandsvæðastjórnun, annarsvegar skipulag haf- og strandsvæða og hinsvegar um úrlausnir ágreiningsmála við auðlindastjórnun. Fyrra námskeiðið, Planning of Coastal and Marine Regions, kennir Dr. Patricia Manuel frá Dalhousie háskólanum í Kanada. Þetta er í fyrsta sinn sem Dr. Manuel kennir námskeið við Háskólasetrið en góð tengsl eru á milli Háskólasetursins og Dalhousie háskólans enda hafa fleiri kennarar meistaranámsins komið þaðan, auk þess sem nokkrir núverandi meistaranemar luku grunnnámi sínu við kanadíska háskólann.

Síðarnefnda námskeiðið Conflict Resolution in Resource Managment kennir Dr. Ronald Wennersten frá Konunglega tækniháskólanum í Stokkhólmi. Dr. Wennersten kenndi þetta námskeið einnig árið 2009 og bjóðum við hann velkominn á ný.