föstudagur 2. september 2022

Skemmtun og skóli

Þessi vika hefur verið dálítið óhefðbundin hér í Háskólasetrinu. Nýnemarnir voru að hefja námið og læra á umhverfið á meðan eldri nemarnir liggja yfir meistaraverkefnunum sínum og sumir þeirra hafa jafnvel verið að undirbúa og verja verkefnin sín.

Í gær og í dag hafa nýnemarnir verið í vettvangsferð um Vestfirði. Ferðin er hin besta skemmtun þau hafa verið mjög heppin með veður, en hægt er að fylgjast með ferðinni á Instagram reikningi Háskólaseturs: @uwiceland. Þau hafa meira að segja skellt sér í sjóinn, ótrúlegt en satt!

Á meðan hófust meistaravarnir í Háskólasetrinu á Ísafirði. Tvær varnir fóru fram í gær og ein er á dagskrá í dag, en restin af vörnunum fara fram eftir helgi. Allar upplýsingar um varnirnar, loknum og óloknum, má finna hér til hliðar undir Á döfinni, en þær eru allar opnar almenningi og er einnig streymt með Zoom.

Margt áhugavert er að finna í meistaraverkefnunum, til dæmis samspil kynja, náttúruauðlinda og sæferðaþjónustu, hvaða áhrif borgaralaun gætu haft á nýsköpun á Íslandi og rannsóknir á nýjasta meðlimi dýralífsins við Íslandsstrendur, brislingi.

Á þessu má sjá að nám við Háskólasetur Vestfjarða er ekki einungis strit heldur líka skemmtun því við nýtum umhverfið á hinum stórkostlegu Vestfjörðum til fulls!


Mynd: Matthias Kokorsch
Mynd: Matthias Kokorsch
1 af 8