Sjávartengd ferðaþjónusta
Í Vísindaporti föstudaginn 28. febrúar, mun Eva Dögg Jóhannesdóttir, starfsmaður Náttúrustofu Vestfjarða kynna nýútkomna skýrslu um verkefnið ,,Sjávartengd ferðaþjónusta á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal“. Skýrslan var unnin af starfsmönnum Náttúrustofu Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.
Markmið verkefnisins er að sjávarþorpin Patreksfjörður, Tálknafjörður og Bíldudalur sem öll eru á sunnanverðum Vestfjörðum verði áfangastaðir með áherslu á upplifun í sjávartengdri ferðaþjónustu til styrkingar á ímynd, nýsköpun fyrirtækja og atvinnuþróunar á svæðinu. Framkvæmdar voru grunnrannsóknir til að greina sérstöðu þorpanna og svæðisins í heild til uppbyggingar á sjávartengdri ferðaþjónustu.
Verkefnið er grunnrannsókn á svæði sunnanverðra Vestfjarða sem hefur ekki verið rannsakað sem eitt svæði áður m.t.t. sjávartengdrar ferðaþjónustu. Æskileg niðurstaða er að verkefnið bæti ímynd þorpanna og svæðisins í heild og það efli sjálfsmynd íbúa, stolt á uppruna og sögu. Einnig að skapa jákvæðara viðhorf gagnvart atvinnuuppbyggingu í sjávartengdri ferðaþjónustu á svæðinu. Tilgangur verkefnisins var m.a. að fá ferðamenn til að dvelja lengur á svæðinu og skapa þannig auknar gjaldeyristekjur.
Niðurstöður verkefnisins benda til að stór hluti erlendra ferðamanna hafi áhuga á að dvelja lengur á svæðinu verði framboð á sjávartengdri ferðaþjónustu aukið. Einnig benda niðurstöður til þess að samsetning erlendra ferðamanna á suðursvæði Vestfjarða sé önnur en þeirra sem sækja aðra hluta Vestfjarða.
Eva Dögg Jóhannesdóttir er líffræðingur að mennt og starfar hjá Náttúrustofu Vestfjarða með aðsetur á Bíldudal.
Vísindaportið er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.