fimmtudagur 21. nóvember 2013

Sjávarflóð

Sérstakt rannsóknaverkefni um sjávarflóð hefur verið í gangi á Snjóflóðasetri Veðurstofu Íslands frá því í byrjun árs 2013.  Sjávarflóð á Ísafriði hafa verið í sérstökum brennidepli.   Björn Erlingsson, starfsmaður Snjóflóðaseturs ætlar að  kynna verkefnið í Vísindaporti föstudaginn 22. nóvember.

Sjávarborð hækkar við það að djúpar lægðir fara yfir landgrunnið. Gerist þetta á sama tíma og stórstreymt er og mikill öldugangur og áhlaðandi vegna hvassviðris verður sjávarflóð við strendurnar. Hækki sjávarborð vegna landsigs, hlýnunar og bráðnunar jökla þá eykst tíðni sjávarflóða fyrir tiltekinn stað í flæðarmálinu. 


Með tölfræðilegri greiningu á tíðni flóða og tilheyrandi endurkomutímum má ákvarða flóðhæðir af gefnum líkum.  Af greiningunni má ákvarða þá sjávarhæðarbreytingu sem 10*faldar líkur á sjávarflóðum og þannig fá fram mat á því hversu berskjölduð strandsvæði eru fyrir breytingum á sjávarhæð. Mismunandi sviðsmyndir loftlagsbreytinga gera ráð fyrir sjávarborðshækkunum á bili 0,3-0,7 m á næstu 100 árum.  Samkvæmt mælingum á tíðni sjávarflóða er 10*földunar hæð sjávarflóða fyrir Reykjavík um það bil 0,5 m, en á Ísafirði áætlast hún 0,25 m. 


Með þessum aðferðum má setja mismunandi sviðsmyndir loftlagsbreytinga í samhengi við breytingar á sjávarflóðalíkum (endurkomutíma flóða) á fyrir mismunandi strandbyggðir og meta áhrif loftlagsbreytinga á forsendur fyrir skiplagi byggðar á strandsvæðum. 


Björn er með B.Sc próf í eðlisfræði frá Háskóla Íslands 1981 og Cand Sc. í hafeðlisfræði frá Háskólanum í Osló 1987.


Vísindaportið er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.