þriðjudagur 10. júlí 2018

Sjávarbyggðafræði frestast um eitt ár

Þann áttunda mars síðastliðinn barst Háskólasetrinu sú ánægjulega frétt að mennta- og menningarmálaráðuneytið myndi styðja við nýja námsleið í Sjávarbyggðafræði sem Háskólasetur Vestfjarða býður upp á í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Þar með var óvissa um námsleiðina úr sögunni. Áður hafði Sóknaráætlun Vestfjarða veitt námsleiðinni styrk til þriggja ára og um áramótin hafði vefsíða hennar verið sett í loftið og auglýsing hafist meðfram núverandi námsleið, Haf- og strandsvæðastjórnun.

Þegar grænt ljós kom frá ráðuneytinu í mars var tíminn af skornum skammti til að afla nemenda í glænýtt meistaranám á Vestfjörðum, jafnvel þótt síðasti mögulegi umsóknarfrestur, 5. júní, hafi verið nýttur. Námið hafði vissulega fengið mjög jákvæð viðbrögð og fjöldi fyrirspurna borist en á þeim stutta tíma sem gafst tókst hinsvegar ekki að fá ástættanlegan lágmarksfjölda til að fara af stað með námsleiðina nú haustið 2018.

Stjórn Háskólaseturs ákvað því á síðasta fundi sínum að fresta námsbyrjun um eitt ár fram að hausti 2019, undirbúa námsleiðina betur og auglýsa af krafti strax frá hausti 2018. Starf fagstjóra fyrir sjávarbyggðafræði var auglýst í mars síðastliðnum. Tólf sóttu um og þar af sex með doktorspróf. Ákveðið var að ráða ekki í stöðuna að svo stöddu. Stjórn hefur hinsvegar heimilað að ráða í tímabundna stöðu verkefnastjóra meistaranáms frá hausti 2018 en leggur til að endurauglýsa stöðu fagstjóra að ári.

Aðsókn að námi í Haf- og strandsvæðastjórnun er hins vegar með besta móti og munu 25 manns hefja nám í lok ágúst. Við það bætast árlega þátttakendur í stökum námskeiðum, aðallega á vor- og sumarönn, en aðsókn í stök námskeið hefur vaxið síðustu ár, þannig að vorið 2018 var ekki hægt að taka inn alla gestanemendur. Það má því gera ráð fyrir að nýja námsleiðin í Sjávarbyggðafræði muni þróast með sama hætti þegar fram líða stundir. Gert er ráð fyrir að fjöldi umsækjenda í Haf- og strandsvæðastjórnun muni hjaðna lítillega með tilkomu nýrrar námsleiðar enda má segja að Háskólasetrið sé að hluta til í samkeppni við sjálft sig. En miðað við góðan og stöðugan fjölda nemenda í núverandi meistaranámi í Haf- og strandsvæðastjórnun kemur ekki að sök þótt nemendum fækki smávægilega í því námi í framtíðinni.

Auk þess mun fara af stað í haust nýtt meistaranám hjá Háskólasetri í samstarfi við SIT, sem er lítill Háskóli í Vermont, þar sem von er á um 10 nemendum á haustmisseri. Námsleiðin heitir á ensku Climate Change and Global Sustainability. Þótt námsleiðin í Sjávarbyggðafræði frestist um ár verður því engu að síður umtalsverð fjölgun námsmanna á þess vegum í haust og tíminn sem við þessar breytingar skapast mun nýtast vel til að undirbúa Sjávarbyggðafræðina enn betur.