Sjálfbær þangrækt: Verkefninu SUSCULT lokið
Verkefnið „Sustainable Cultivation of Seaweed“ (SUSCULT) um sjálfbæra ræktun þangs, sem Háskólasetrið hefur tekið þátt í lauk nú á dögunum. Útkoma verkefnisins er afar áhugaverð og opnar á fjölda hugmynda um áframhaldandi rannsóknir. Verkefnið var fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni og hafði það að markmiði að kanna möguleika á þangrækt á norðlægum slóðum, bæði með samantekt á rannsóknum um efnið og með lítilli tilraunaræktun. Miðað við núverandi framleiðslu á markaði má sjá að vænlegustu tegundirnar við Atlantshafsstrendur Norðurlanda eru beltisþari (Saccharina latissima) og marinkjarni (Alaria esculenta). Þessar tegundir eru nú þegar ræktaðar og gefa af sér 70 til 200 tonn á hektara í ferskri þyngd. Við Eystrasalt hafa bóluþang (Fucus vesiculosus) og slafak (Ulva intestinalis) verið greind sem vænlegustu tegundirnar. Sem stendur eru í gangi tilraunaræktanir við Eystrasalt en ekki hefur verið farið út í markaðsframleiðslu í stórum stíl enn sem komið er.
Finnska umhverfisstofnunin leiddi SUSCULT verkefnið en þátttakendur komu frá Danmörku, Eistlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Á hverjum stað fyrir sig gerðu þátttakendur tilraunir með lítilli tilraunaræktun þar sem áhersla var lögð á að nota „lágtækni“ aðferðir með línum til að kanna hve mikið þang myndi vaxa náttúrulega á línunum. Þetta er ólíkt því sem venjulega er gert í þangræktun þar sem fæ eru frjóvguð á línunum í tilraunastofum áður en línurnar eru settar í sjó. Nokkur breytileiki var á milli niðurstaðna þátttakenda en þó virðist sem brúnþörungar, Pilayella sp og Ectocarpus sp séu mest ráðandi bæði í Eystrasalti og við strendur Atlandshafs. Vöxturinn var tiltölulega lítill með bjartsýna spá upp á 10 tonn á hektara í ferskri þyngd. Rannsóknin staðfestir að frjóvgun lína áður en þær eru settar í hafið er nauðsynleg fyrir markaðsframleiðslu.
Hjá Háskólasetrinu var verkefnið leitt af Dr. Catherine Chambers, rannsóknastjóra, en einnig tóku þátt í því tveir nemendur Háskólasetursins þau Kerstin Frank og Nick Hoad sem unnu að verkefninu í starfsnámi. Einnig tók þátt í verkefninu Justin Brown sem útskrifaðist úr haf- og strandsvæðastjórnun árið 2019 en hann starfaði sem rannsóknaraðili fyrir hönd Eldey Aqua, sem er nýsköpunarfyrirtæki á sviði lagareldis á Vestfjörðum. Rannsóknafyrirtækið BioPol á Skagaströnd tók einnig þátt í verkefninu. Þetta teymi hannaði og setti út tilraunalínur, fylgdist með vextinum og safnaði loka niðurstöðum auk þess að gera greiningar í tilraunastofu. Þungmálmar, einkum kadmíum, arsenik, finnast í náttúrulegu umhverfi við strendur Íslands og var sérstaklega hugað að þeim í tengslum við verkefnið. Þangið sem óx á línunum hafði ekki að geyma þessa málma í magni sem fer yfir evrópska matvælaöryggisviðmiðanir. Þetta eru mjög jákvæðar fréttir fyrir þá sem hyggjast stunda þangrækt en þó er frekari rannsókna þörf.
Önnur hlið á verkefninu var að rannsaka lagaramma þangræktar. Um þann þátt sá Kerstin Frank og er lokagreinargerð hennar nú þegar komin í umferð meðal íslenskra sprotafyrirtækja og aðila í stjórnkerfinu sem taka ákvarðanir. Frekari upplýsingar má nálgast hér.
Áhugi á þangi fer vaxandi á Íslandi og við vonumst til að vera þátttakendur í rannsóknarverkefnum á borð við SUSCULT í framtíðinni sem fjalla um þangrækt á þverfræðilegan hátt.