föstudagur 18. janúar 2019

Sjálfbær ferðamennska í sjávarbyggðum

Johanna Schumacher, sem útskrifaðist úr haf- og strandsvæðastjórnun árið 2014, birti nýverið greinina „Mesuring and comparing the sustainability of coastal tourism destinations in Germany, Lithuainia and Indoneasia“. Greinin birtist í þverfræðilega tímaritinu Environment, Development, and Sustainability og byggir hún á meistaraprófsverkefni Johönnu þar sem einblínt var á notkun og bætingu sjálfbærnivísa (e. sustainability indicators) í sjávarbyggðum.

Að lokinni útskrift úr haf- og strandsvæðastjórnun hóf Johanna störf við Leibniz stofnunina í Eystrasaltsrannsóknum sem er staðsett í Warnemünde í Þýskalandi. Meðfram störfum sínum við stofnunina hefur Johanna einnig stundað doktorsnám við umhverfis- og vistfræðideild Klaipeda háskólans í Litháen. Í doktorsverkefninu einbeitir hún sér að verkferlum og aðferðum til að bæta stjórnun haf- og strandsvæða.

Johanna er einnig þátttakandi í tveimur alþjóðlegum þverfræðilegum verkefnum sem snúa að rannsóknum í Eystrasaltinu, annarsvegar er það OPTIMUS verkefnið (Optimization of mussel mitigation cultures for fish feed in the Baltic Sea) og hinsvegar DESTONY verkefnið (Decision Support Tools for Managing the Baltic Sea Ecosystem). Hún er einnig hluti af vinnuhópi í haf- og strandsvæðastjórnun við Leibniz stofnunina (IOW) og ferðast á hans vegum á milli landa við Eystrasaltið með vinnustofur, ráðstefnur og námskeiðahald í samþættri strandsvæðastjórnun m.a. við háskólana í Klaipeda og Rostock.

Í greininni í Environment, Development and Sustainability fjallar Johanna um notkun sjálfbærnivísa til að meta sjálfbærni ferðamannastaða við ströndina á afmörkuðum svæðum. Markmið rannsóknarinnar var að útbúa viðeigandi sjálfsmatsverkfæri fyrir hagsmunaaðila og bæta þá vísa sem notaðir eru við matið. Sjálfsmatsverkfærið var prófað á tíu ólíkum áfangastöðum ferðamanna í Þýskalandi, Litháen og Indónesíu. Niðurstöðurnar benda til þess að verkfærið sé gagnlegt til að greina og flokka sjálfbærni hvers svæðis ásamt því að auka samfélagslegan skilning og vísa veginn fyrir framtíðarskipulag.

Tímaritið Environment, Development and Sustainability er ritrýnt, alþjóðlegt, þverfræðilegt tímarit sem fjallar um allar hliðar umhverfisáhrifa félagshagfræðilegrar þróunar. Greinin er aðgengileg hér á vefsvæði tímaritsins en einnig má lesa meistaraprófsritgerð Johönnu á Skemmunni.  


Johanna Schumacher birti nýverið grein í ritrýndu tímariti sem byggir á meistaraprófsverkefni hennar við Háskólasetrið.
Johanna Schumacher birti nýverið grein í ritrýndu tímariti sem byggir á meistaraprófsverkefni hennar við Háskólasetrið.