miðvikudagur 4. mars 2009

Síðustu íslensku smákaupmennirnir

[mynd 1 h]Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða föstudaginn 6. mars mun Helga Rakel Rafnsdóttir fjalla um heimildarmyndina Kjötborg sem hún leikstýrði ásamt Huldu Rós Guðnadóttur. Myndin fjallar um verslunina Kjötborg við Ásvallagötu í Reykjavík sem bræðurnir Gunnar og Kristján Jónassynir reka.

 

Með kærleikann og kímnigáfuna að vopni berjast bræðurnir fyrir lífi síðasta vígis íslensku smákaupmannastéttarinnar. Með kaupmennskuna í blóðinu halda þeir fast í gamla verslunarhætti sem virka. Hér er um að ræða óvenjulega ástarsögu, fyndna og innilega mynd sem sýnir kaupmannslistina í nýju ljósi. Kvikmyndin um Kjötborg hlaut einróma lof gagnrýnenda og fjölda verðlauna. Hún hlaut Einarinn á Skjaldborgarhátíðinni, Silfurrefinn á Reykjavík Shorts&docs, Edduverðlaunin 2008 og í vikunni hlaut myndin Menningarverðlaun DV. Auk þess ferðast myndin um þessar mundir á kvikmyndahátíðir víða um heim.

 

Í erindinu mun Helga Rakel sýna stutta samantekt úr myndinni til að draga upp mynd af þeirri stemmningu sem í henni ríkir. Þá mun hún ræða almennt um tilurð myndarinnar, ástæðuna fyrir gerð hennar, aðferðinni og ástæðu þess að einmitt þetta efni varð fyrir valinu hjá þeim stöllum. Jafnframt mun Helga Rakel koma stuttlega inn á stöðu ungra kvenna í íslenskri kvikmyndagerð og að sjálfsögðu svara öllum spurningum sem kunna að vakna.

 

Helga Rakel er Önfirðingur, fædd árið 1975. Um þessar mundir leikstýrir hún sólrisuleikriti Menntaskólans á Ísafirði, Draumi á Jónsmessunótt eftir William Shakespeare, sem sýnt er í Edinborgarhúsinu. Hún lærði leiklist við École Philip Gaulier í London, bókmenntafræði við Háskóla Íslands og leikhúsfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Kjötborg er fyrsta heimildamyndin hennar.

 

 

Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum og hefst stundvíslega kl. 12.10. Það fer fram í kaffisal Háskólaseturs og eru allir velkomnir.