mánudagur 30. september 2019

Síðasti kennsludagur Jamie Alley

Fyrr í þessum mánuði kenndi Jamie Alley sitt síðasta námskeið í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Jamie Alley hefur kennt við námsleiðina samfleitt frá árinu 2011, alls ellefu námskeið auk þess að leiðbeina fjölda nemenda við lokaritgerðir. Hann hefur meðal annars tekið að sér það mikilvæga hlutverk að sinna kennslu í einu af grunnnámskeiðum námsleiðarinnar um samþætta stjórnun strandsvæða.

Í síðustu kennlustundinni kom starfsfólk Háskólaseturs, ásamt hópi fyrrverandi og núverandi nemenda, Jamie á óvart og færðu honum örlítinn þakklætisvott fyrir vel unnin störf í þágu Háskólasetursins. Af því tilefni fór Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs, í stuttu máli yfir eitt og annað sem Háskólasetrið stendur í þakkarskuld við Jamie vegna. Peter nefndi ýmislegt skemmtilegt og gagnlegt sem hann hefur innleitt hjá Háskólasetrinu í gegnum tíðina. Þar á meðal þá hefð að taka hópmynd af nemendunum og útbúa sérstakan kynningarbækling nemenda sem gefur kennurum og nemendum betri mynd af hópnum áður en kennsla hefst. Þá er ótalið það mikilvæga hlutverk sem Jamie hefur gengt í gegnum tíðina sem einskonar sendiherra Háskólaseturs á vesturströnd Kanada. En Hásólasetrið á Jamie það að þakka að fjölmargir nemendur tóku ákvörðun um að hefja nám hér á Ísafirði. Einnig lagði Peter áherslu á mikilvægu hlutverki Jamies í gegnum tíðina sem fagaðila í kennarahópnum. Jamie býr að áratuga reynslu í ráðgjafastörfum, hjá hinu opinbera og einkaaðilum, á sviði auðlindstjórnunar, fiskveiða og stefnumótun. Hann hefur því getað miðlað frá fyrstu hendi til nemenda hvernig vinnu á þessu sviði er háttað þegar námi lýkur.

Háskólasetur Vestfjarða óskar Jamie alls hins besta í framtíðinni og treystir því að hann muni áfram sinna sendiherrahlutverkinu af kostgæfni ásamt því að leiðbeina nemendum við lokaritgerðir og veita almenna ráðgjöf í stóru sem smáu.


Peter Weiss, forstöðumauðr Háskólaseturs, Jamie Alley og Catherine Chambers fagstjóri meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun.
Peter Weiss, forstöðumauðr Háskólaseturs, Jamie Alley og Catherine Chambers fagstjóri meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun.