fimmtudagur 27. nóvember 2008

Sérfræðingur á sviði umhverfishagfræði kennir við Háskólasetur

Síðastliðinn mánudag hófst kennsla í fimmta og síðasta námskeiði haustannar í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun. Kennari námskeiðsins er dr. Gabriela Sabau sem starfar við Memorial háskólann á Nýfundnalandi í Kanada. Meðal rannsóknarefna dr. Sabau er hagfræði sem snýr að sjálfbærri þróun, umhverfi, vistfræði, náttúru og auðlindum. Einnig hefur dr. Sabau fengist við rannsóknir á fræðilegar hliðum þekkingarsamfélagsins og hagkerfi sem byggjast á þekkingu.

Þessi málefni hafa kannski aldrei verið jafn knýjandi og einmitt nú þegar kreppa hefur skollið á heimsfjármálakerfinu. Á Íslandi er umræða um auðlindir lands og sjávar áberandi og mikilvægi þessara grunnstoða efnahagslífsins aftur komið í kastljósið, ásamt umræðu um menntun og þekkingarsamfélagið sem mikilvægum liðum í því að rísa úr rústum kreppunnar. Það er því ljóst að fræðileg viðfangsefni dr. Sabau snúa að einhverjum mest knýjandi viðfangsefnum Íslendinga og raunar heimsbyggðarinnar allrar.