Sekúndu ákvörðun
Ólafur Jens Sigurðsson eðlisfræðingur og kennari við Háskólasetur Vestfjarða verður gestur Vísindaports föstudaginn 23. Janúar. Vísindaportið hefst að venju klukkan 12.10 og fer fram í kaffisal Háskólaseturs.
Skáldið sagði að tíminn væri eins og vatnið, en innan eðlisfræðinnar er litið svolítið öðruvísi á tímann. Allt frá örófi alda hefur mannskepnan haft áhuga á að halda utan um lengd tímabils og staðla tímann á einhvern máta. Hver kannast ekki við sólúr sem sýnir tíma og tímaglös þar sem sandur rennur niður um þröngt rör og mælir tímalengd.
Sem betur fer eru komnar mun betri og nákvæmari aðferðir til að mæla tímalengdir og í þessum fyrirlestri verður farið í þá aðferð sem notuð er í dag, svokallaða atómklukku. Reynt verður að skýra hvernig svona klukka virkar, hvaða vandamál eru við það að byggja slíka klukku og hvaða áform eru uppi um endurbætur á slíkri klukku. Í því samhengi mun Ólafur koma inn á meistaraverkefni sitt sem fjallar um leiser kælingu á magnesíum atómum.
Ástæðan fyrir því að við höfum svona mikinn áhuga á því hversu löng sekúndan er, er sú að þegar búið er að ákvarða lengd sekúndunnar þá er búið að búa til tíðni staðal sem er mjög mikilvægt í sambandi við öll fjarskipti. Einnig er þetta mikilvægt út frá eðlisfræðilegu sjónarhorni til þess að mæla stærðir á ákveðnum föstum innan eðlisfræðinnar.
Ólafur er að klára meistararitgerð um ofangreint efni. Hann hóf störf sem kennari hjá Háskólasetri Vestfjarða síðastliðið sumar og kennir stærðfræði og eðlisfræði þar. Hann útskrifaðist með B.S. gráðu frá Háskóla Íslands og fór að því loknu til Bandaríkjanna þar sem hann starfaði á rannsóknarstofu í rafmagnsverkfræði í eitt ár. Þegar hann kom aftur til Íslands hóf hann störf hjá Geislaeðlisfræðideild Landspítala Háskólasjúkrahúss þar til hann hóf meistaranám í eðlisfræði við Kaupmannahafnar Háskóla.