fimmtudagur 23. maí 2013

Samstarfssamningur um Sjávartengda nýsköpun

Á aðalfundi Háskólaseturs Vestfjarða, sem fram fór föstudaginn 17. maí, var skrifað undir nýjan samstarfssamning á milli Háskólaseturs Vestfjarða og Háskólans á Akureyri um meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun. Auk áframhaldandi samstarfs um meistaranámið í haf- og strandsvæðsastjórnun felur samningurinn einnig í sér samstarf stofnanna tveggja um nýtt meistaranám, Sjávartengda nýsköpun.

Sjávartengd nýsköpun er nokkuð nýstárleg námsleið enda er hér um að ræða hagnýtt meistaranám sem boðið er upp á í nánu samstarfi við Háskólann á Akureyri og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Námið miðar að því að nemendur skapi sér sín eigin atvinnutækifæri í gegnum nýsköpunarhugmynd sem þeir þróa í náminu. Í því sambandi er lögð áhersla á eðli og skilyrði nýsköpunar, reksturs örfyrirtækja og málefni hafs og stranda. Námið er því einstaklingsmiðað og mun hver og einn nemandi skipuleggja námið í samvinnu við leiðbeinendur og kennslustjóra Háskólaseturs.

Þar sem námið er einstaklingsmiðað er gert ráð fyrir fáum námsmönnum, allt frá einum og upp í fimm. Fjöldi námskeiða standa nemendum til boða, einkum námskeið meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun sem og námskeið sem eru í boði í gegnum samstarfsnet opinberu háskólanna á Íslandi. Einnig er mögulegt að sækja námskeið hjá öðrum innlendum og erlendum háskólum.

Skráning í meistaranámið í Sjávartengdri nýsköpun stendur nú yfir en allar nánari upplýsingar um námið má nálgast á vefsíðu þess.

Ögmundur Haukur Knútsson, forseti viðskipta- og raunvísindasviðs var fulltrúi Háskólans á Akureyri, og Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs við undirritun samningsins.
Ögmundur Haukur Knútsson, forseti viðskipta- og raunvísindasviðs var fulltrúi Háskólans á Akureyri, og Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs við undirritun samningsins.