fimmtudagur 28. maí 2015

Samstarfi um frumgreinanám senn að ljúka

Frá árinu 2008 hefur Háskólasetur Vestfjarða átt í góðu samstarfi við Háskólann í Reykjavík um kennslu frumgreinanáms.  Verkefnið hófst á vorönn 2008 þegar Háskólasetur fékk fjármagn til að bjóða upp á slíkt nám í tengslum við mótvægisaðgerðir þáverandi ríkisstjórnar vegna niðurskurðar þorskveiðiheimilda.  Staðnámshópur hóf námið í janúar 2008 og þar sem vilji var til að allir Vestfirðingar gætu nýtt sér þetta verkefni var strax ákveðið að bjóða einnig upp á námið í fjarkennslu. Úr varð að Háskólasetrið samdi við Háskólann í Reykjavík um að  hafa umsjón með fjarkennslu fyrstu annar frumgreinanáms HR um land allt. Staðnámshópar í Háskólasetrinu urðu þó aldrei fleiri en tveir og var ljóst að þörfinni fyrir slíkt námsframboð var þar með fullnægt á svæðinu í bili.

Samstarfið við HR hélt þó áfram og hafa kennarar á vegum Háskólasetursins frá upphafi samstarfsins haft umsjón með kennslu á fyrstu önn frumgreinanáms frá Ísafirði. Metnaður hefur verið lagður í að þróa fjarkennsluaðferðir og leiðir til að koma til móts við þarfir fjarnema. Þetta samstarf sýnir glögglega að fjarkennsla þarf ekki að vera einstefna og að landsbyggðirnar geta bæði þegið og veitt fjarkennslu.

Mikil ánægja hefur verið með samstarfið og eru annirnar nú orðnar fimmtán talsins sem Háskólasetrið hefur haft umsjón með. Allt er þó breytingum háð og mun skipulag frumgreinanáms við Háskólann í Reykjavík taka á sig aðra mynd á næstunni. Við það mun þessu farsæla samstarfi ljúka.

Þrír kennarar hafa starfað við verkefnið frá upphafi, en það eru þær Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, sem kenndi ensku,  Anna Guðrún Edwardsdóttir, dönskukennari og Sólrún Geirsdóttir, íslenskukennari. Nokkrar mannabreytingar hafa hinsvegar verið vegna kennslu í öðrum greinum í gegnum tíðina. Þökkum við öllum þeim sem komið hafa að þessu verkefni í gegnum árin kærlega fyrir þeirra þátt í því.

Háskólasetur Vestfjarða þakkar Háskólanum í Reykjavík fyrir samstarfið og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.


Fyrstu frumgreinanemarnir við Háskólasetur Vestfjarða útskrifuðust frá HR í janúar 2010 og var þeim gert hátt undir höfði í athöfninni. Efri röð frá vinstri: Málfríður Þórarnisdóttir, forstöðumaður frumgreinasviðs HR, Finnbogi Bjarnason útskriftarnemi, Sigurbjörg Benediktsdóttir útskriftarnemi, Guðmundur Óskar Reynisson útskriftarnemi, Guðrún Högnadóttir framkvæmdastjóri Opna Háskólans í HR. Neðri röð: Martha Lilja M. Olsen, þáverandi kennslustjóri Háskólaseturs, Svafa Grönfeldt þáverandi rektor HR og Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs.
Fyrstu frumgreinanemarnir við Háskólasetur Vestfjarða útskrifuðust frá HR í janúar 2010 og var þeim gert hátt undir höfði í athöfninni. Efri röð frá vinstri: Málfríður Þórarnisdóttir, forstöðumaður frumgreinasviðs HR, Finnbogi Bjarnason útskriftarnemi, Sigurbjörg Benediktsdóttir útskriftarnemi, Guðmundur Óskar Reynisson útskriftarnemi, Guðrún Högnadóttir framkvæmdastjóri Opna Háskólans í HR. Neðri röð: Martha Lilja M. Olsen, þáverandi kennslustjóri Háskólaseturs, Svafa Grönfeldt þáverandi rektor HR og Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs.