föstudagur 15. júlí 2011

Samstarf á heimaslóðum til að leysa hnattrænt viðfangsefni

Nú þegar kennslu er lokið hjá núverandi Haf - og strandsvæðanemum Háskólaseturs Vestfjarða hefur vinna þeirra að lokaverkefnum hafist. Nokkuð stórt hlutfall nemenda vinnur nú að rannsóknum sínum á Vestfjörðum. Á meðal þeirra er Dafna Isreal, en hún sökkti nýlega tveimur gervirifum í Skutulsfjörð, en þau eru hluti af rannsóknarverkefni hennar.

Fyrri rannsóknir á gervirifum hafa bent til að hægt sé að nota þau til að draga úr mengun vegna uppsöfnunar fóðurleifa á sjávarbotni. Hingað til hafa gervirif verið notuð og rannsökuð í fjórum löndum. Það eru Ísrael, Hong Kong, Síle og Spánn, en engar rannsóknir hafa verið gerðar virkni slíkra rifa á kaldari slóðum, né í fjörðum. Rannsókn Döfnu er því ætlað að kanna hvort hægt sé að nota gervirif til að draga úr uppsöfnun fóðurleifa í kringum sjávareldi í (kaldara loftslagi) fjörðum. Verkefnið mun þannig styðja við frekari vöxt í sjávareldi með því að svara rannsóknarspurningunni: Draga gervirif úr uppsöfnun fóðurleifa í kringum eldiskvíar?

 

Rifunum var sökkt fyrir neðan kvíar Álfsfells, en rifin voru byggð úr afgöngum og rusli með aðstoð Árna Helgasonar. Davíð Kjartansson og sonur hans Kjartan sem vinna fyrir Álfsfell hafa einnig tekið virkan þátt í rannsókninni og aðstoðað við flutning út í kvíarnar á þeim dögum sem sýnataka fer fram. Dafna safnar sjálf sýnum af rifunum, með aðstoð köfunarmeistarans Sveinbjörns (Simba) Hjálmarssonar. Eftir sýnatökuna rannsakar Dafna sýnin með aðstoð Christians Gallo hjá Náttúrustofu Vestfjarða (NAVE) í Bolungarvík.

 

Ef rannsóknin heppnast gæti hún orðið grunnur að frekari rannsóknum og notkun gervirifa undir fleiri sjávarkvíum. Rannsókn sem þessi gæti einnig haft töluvert notagildi, enda er sjókvíaeldi vaxandi á Vestfjörðum.

 

Ríkissjónvarpið fjallaði um rannsókn Döfnu í fréttatíma sínum í gær. Þeir sem eru áhugasamir geta horft á fréttabútinn á heimasíðu RÚV.


Dafna að búa sig undir köfun
Dafna að búa sig undir köfun
1 af 4