föstudagur 14. desember 2018

Samningur við Háskólann á Akureyri um meistaranám endurnýjaður

Nokkrir starfsmenn Háskólaseturs Vestfjarða héldu norður í land í síðustu viku í stutta heimsókn í Háskólann á Akureyri. Megin tilgangur ferðarinnar var sá að undirrita endurnýjaðan samning við HA um meistaranám en einnig var ferðin nýtt til fundahalda með ýmsum aðilum hjá þessum nána samstarfsaðila okkar.

Fyrsti samningur Háskólaseturs Vestfjarða og Háskólans á Akureyri um meistaranám var undirritaður þann 1. febrúar árið 2008 og náði hann til meistaranámsins í Haf- og strandsvæðastjórnun sem hófst það sama ár. Á aðalfundi Háskólaseturs árið 2013 var samningurinn endurnýjaður og þá með viðbótum um meistaranám í Sjávartengdri nýsköpun. Þetta farsæla samstarf við Háskólann á Akureyri hefur nú verið endurnýjað í þriðja sinn og nú með viðbótum sem ná yfir nýtt meistaranám í Sjávarbyggðafræði.

Samningurinn var undirritaður af Peter Weiss forstöðumanni Háskólaseturs og Eyjólfi Guðmundssyni rektor Háskólans á Akureyri að loknum fundi þeirra og framkvæmdastjóra háskólaskrifstofu, Hólmari Svavarssyni.

Þegar samskipti Háskólaseturs og Háskólans á Akureyri síðustu tíu ár eru skoðuð sést vel að mikið traust og skilningur hefur byggst upp á milli þessa aðila og að mikil velvild ríkir hjá HA í garð Háskólaseturs. Slíkt samband auðveldar alla samningagerð, þar með talið endurnýjun samnings um kostnaðarliði og kjör.

Ferðin var líka nýtt í margskonar fundarhöld, formleg og óformleg. Þótt samstarf stofnana tveggja sé náið eru fjarlægðir miklar og því kærkomið að fá tækifæri til að eiga samskipti við samstarfsfólk á annan hátt en í gegnum síma og tölvupósta. Catherine Chambers, fagstjóri meistaranáms, og Sigurður Halldór Árnason, nýráðinn verkefnastjóri meistaranáms, funduðu með fjölda samstarfsaðila við HA um frekari samstarfsmöguleika í framtíðinni í tengslum við meistaranámið hvað rannsóknir og kennslu varðar. Í því sambandi má nefna sviðin tvö sem hýsa meistaranámsleiðirnar, Viðskipta- og raunvísindasvið og Hug- og félagsvísindasvið en einnig Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og alþjóðlega meistaranámið Heimskautaréttur. Fleiri stofnanir búa yfir miklum tengslum við viðfangsefni meistaranámsleiða Háskólaseturs en við HA eða í tengslum við HA eru stofnanir á borð við skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Norðurslóðanet Íslands.

Margrét Björk Arnardóttir, kennslustjóri Háskólaseturs, nýtti ferðina einnig vel. Hún fundaði með skrifstofustjórum viðskipta- og raunvísindasviðs og hug- og félagsvísindasviðs, starfsfólki bókasafns, prófstjóra og starfsfólki Kennslumiðstöðvar. Einnig fékk kennslustjóri tækifæri til að sitja námskeið um Canvas kennsluumhverfið sem til stendur að Háskólasetur Vestfjarða taki upp á næsta skólaári. Enn frekara samstarf er fyrirséð við Kennslumiðstöð en þar er haldið utan um allar nýjungar varðandi nám og kennslu.

Starfsfólk Háskólaseturs Vestfjarða þakkar Háskólanum á Akureyri fyrir góðar móttökur og hlakkar til að efla það góða samstarf sem er á milli stofnananna tveggja í framtíðinni.


Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs og Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA við undirritun samningsins. Ljósmynd: Hólmar Svavarsson.
Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs og Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA við undirritun samningsins. Ljósmynd: Hólmar Svavarsson.
1 af 2