miðvikudagur 15. október 2008

Sálrænn stuðningur

Í Vísindaporti föstudaginn 17. október mun Bryndís Friðgeirsdóttir svæðisfulltrúi Rauða krossins á Vestfjörðum fjalla um sálrænan stuðning.

Í fyrirlestri sínum mun Bryndís fræða áheyrendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Fjallað verður um hvernig hægt er að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig best er að veita stuðning og umhyggju.

 

Sálrænn stuðningur er á margan hátt svipaður almennri skyndihjálp. Það er litið á þennan stuðning sem fyrstu viðbrögð eða hjálp við einstaklinga án þess að fagaðili komi þar að. Flest af því sem kennt er í sálrænni skyndihjálp er almenn vitneskja, hæfni og færni sem væntanlega er nú þegar notuð af almenningi dagsdaglega jafnvel án þess að fólk geri sér grein fyrir því. Sálrænn stuðningur er því tæki sem allur almenningur getur hagnýtt sér sama hvar í sveit fólk er sett.


Vísindaportið er óformlegur umræðutími í hádeginu á föstudögum og hefst stundvíslega kl. 12.10 og fer fram í kaffisal Háskólaseturs Vestfjarða. Allir velkomnir.