þriðjudagur 5. júlí 2011

SIT vettvangsskólinn hjá Háskólasetrinu

Fimmta árið í röð dvelur nú hópur nema frá School for International Training (SIT) frá Vermont í Bandaríkjunum við Háskólasetrið. Nemarnir eyða rúmlega tveimur vikum á Vestfjörðum og er dvölin liður námskeiði, Renewable Energy, Technology, and Resource Economics in Iceland, sem fer fram hjá RES orkuskólanum á Akureyri, í Reykjavík og hér á Ísafirði. Fagstjóri og umsjónarmaður er líkt og í fyrra Caitlin Wilson, MSc og hefur hún sér til aðstoðar Þórð Guðmundsson, meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands og Juliu Brenner, nemi í starfsjálfun sem fylgir hópnum.

 

Dvöl nemahópanna frá SIT hefur verið með svipuðu sniði í gegnum árin. Hópnum er boðið upp á kynningu á starfsemi Orkubús Vestfjarða ásamt því að fá ýmsa fyrirlestra um orkumál og vettvangsferðir. Kynning á þjóð og tungu er einnig hluti af dvölinni og fá nemarnir að kynnast sögu og menningu Vestfjarða. Er lögð áhersla á Gísla sögu Súrssonar, í formi fyrirlestra, gönguferðar og leikrits.

 

Hver nemi vinnur auk þess sjálfstætt rannsóknarverkefni. Verkefnin fjalla á einn eða annan hátt um endurnýjanlega orkugjafa og mun hópurinn standa fyrir kynningu á verkefnunum á opnum kynningarfundi sem haldinn verður 15. júlí n.k. Nánari tímasetning verður auglýst er nær dregur.


SIT í heimsókn í Neðstakaupstað á Ísafirði, í skoðunarferð um Eyrina.
SIT í heimsókn í Neðstakaupstað á Ísafirði, í skoðunarferð um Eyrina.