föstudagur 3. maí 2013

SIT nemendur í heimagistingu í sumar

Í sumar á Háskólasetrið sem fyrr von á vettvangsskóla á vegum School for International Training (SIT) í Vermont-fylki í Bandaríkjunum. Um er að ræða nemendur sem eru í grunnnámi á háskólastigi og koma þeir landsins til að sitja hér námsáfanga um endurnýjanlega orkugjafa sem stendur yfir í um sjö vikur og fer fram aðallega á norðanverðum Vestfjörðum og í Reykjavík.

Útlit er fyrir að í þessum hópi verði rúmlega 20 nemendur og munu þeir dvelja hér í þrjár vikur frá 16.júní. Caitlin Wilson doktorsnemi í umhverfisfræðum við HÍ er fagstjóri vettvangsskólans og hefur hún sinnt því hlutverki undanfarin ár. Henni til halds og trausts verða Alex Elliott og Astrid Fehling sem bæði eru fyrrverandi nemendur í haf- og strandsvæðastjórnun hér við Háskólasetrið og er Háskólasetrið að sjálfsögðu mjög ánægt að hafa þau með.

Auk þessa að hlýða á fyrirlestra um orkumál, fara í vettvangsferðir tengdar þessum fræðum og vinna verkefni fá nemendurnir kennslu í íslensku og kynnast menningu og sögu svæðisins í gegnum fyrirlestra og skoðunarferðir. Til þess að þeir fái tækifæri til að æfa sig í tungumálinu og um leið kynnast íslensku fjölskyldulífi er þeim boðið að gista í heimahúsum fyrstu tvær vikurnar. Heimagisting er mikilvægur þáttur í öllum námsleiðum á vegum SIT og yfirleitt sá hluti af dvölinni sem nemendum finnst standa upp úr.

Undanfarnar vikur hefur því verið auglýst eftir gestgjöfum til að taka þátt og í vikunni sem leið var haldinn kynningarfundur sem var vel sóttur. Margar fjölskyldur hafa gefið kost á sér og ekki er annað að sjá en að fólk sé spennt yfir því að fá að opna heimilin fyrir þessa erlendu gesti í sumar. Nokkrir af þessum tilvonandi gestgjöfum tóku einnig þátt í fyrra og voru ánægðir með þessa reynslu. Gisting í heimahúsum var þá í boði í fyrsta skipti á okkar svæði og bjuggu nemendur hjá fjölskyldum ýmist á Ísafirði, í Hnífsdal eða í Bolungarvík. Lesa má um reynslu nokkurra fjölskyldna í þessari frétt: „Lærdómsríkt og skemmtilegt að taka erlendan gest inn á heimilið"

Enn er hægt að bæta við nokkrum gestgjöfum og hvetjum við þá sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu verkefni með okkur til að hafa samband við Pernillu Rein verkefnastjóra, pernilla(hjá)uwestfjords.is.

Tilvonandi gestgjafar SIT 2013 á kynningarfundi í Háskólasetri.
Tilvonandi gestgjafar SIT 2013 á kynningarfundi í Háskólasetri.
1 af 3