þriðjudagur 11. apríl 2017

SIT nemendur heimsækja Grænland

Eins og greint hefur verið frá í fréttum Háskólaseturs Vestfjarða stendur nú yfir námsönn á vegum School for International Training (SIT) þar sem sautján bandarískir háskólanemar erum við nám bæði á Íslandi og á Grænlandi í nánu samstarfi við Háskólasetrið. Umfjöllunarefnið er loftslagsbreytingar á Norðurslóðum og er hópurinn nú að ljúka tveggja vikna dvöl á Grænlandi en sjálf önnin er samtals 15 vikur.

Önnin hófst um miðjan febrúar og flaug hópurinn fljótlega til Ísafjarðar þar sem þriggja vikna kennsla fór fram í Háskólasetrinu. Nemendur fengu um leið tækifæri til að kynnast íslenskum fjölskyldum þar sem þeir dvöldu á þeim tíma í heimahúsum. Slík heimagisting hefur verið í boði fyrir nemendur þessa háskóla frá því sumarið 2012 og gefist vel.

Námið á vegum SIT er vettvangsnám og áfanginn sem um ræðir nú kallast „Iceland and Greenland: Climate Change  and the Arctic“. Áfanganum var hleypt af stokkunum s.l. haust en þá kom fyrsti hópurinn til landsins. Námið fer að stærstum hluta fram á Íslandi fyrir utan tveggja vikna dvöl á Grænlandi. Hópurinn sem um ræðir nú er því sá annar í röðinni.

Nemendurnir héldu til Grænlands undir lok mars og hófst dvölin í höfuðborginni Nuuk. Pernilla Rein verkefnastjóri hjá Háskólasetrinu er með í för að þessu sinni en hún hefur á undanförnum árum haft umsjón með þjónustu við vettvangsskóla og m.a. skipulagt heimagistingu á meðan á Ísafjarðarhluta námsins stendur.

Grænlandsdagskráin hefur verið nokkuð þétt og samanstaðið af fyrirlestrum og kynningum auk heimsókna, vettvangsferða og fleira.  Að fyrirlestrum koma m.a. sérfræðingar, t.a.m. frá GEUS, jarðfræðistofnun Danmerkur og Grænlands og Náttúruauðlindastofnun Grænlands. Nokkrir fyrirlestraranna fóru fram í húsakynnum Ilisimatusarfik, Háskóla Grænlands, og fengu nemendur um leið tækifæri til að skoða sig um þar. Rannsóknastöðin Asiaq (Greenland Survey), sem er einnig staðsett í Nuuk, var heimsótt og starfsemin þar kynnt. Sögu, menningu og tungu Grænlands voru einnig gerð skil með heimsókn á Þjóðminjasafnið, fyrirlestri, kennslu i grænlensku og dönsku og þjóðbúningakynningu. Í þessu samhengi má einnig nefna matarvenjur Grænlendinga, en eitt kvöldið var blásið til veislu þar sem boðið var upp á hvalkjöt, sauðnautsbollur, herta loðnu, krabba, grænlenskt lamb og fleira góðgæti. Til kvöldverðarins mætti einnig ungt tónlistarfólk af staðnum og bauð upp á lifandi tónlist.

Í dagssiglingu um Nuup kangerlua (danska: Godthaab Fjord, eldra enskt heiti: Gilbert Sound eða Baal's River), sem er fjörðurinn eða öllu heldur fjarðakerfið inn af Nuuk, fengu nemendur tækifæri til að nánast snerta jökulinn, en vegna góðra veðurskilyrða var hægt að sigla mjög nálegt ísröndinni. Hreindýr sáust í fjöllum og ernir svifu um.

Auk kennslu og fræðslu gáfust mörg tækifæri til útivistar og skemmtana. Nægur snjór var til að bregða sér á skíði og notfærðu margir sér það. Einnig var í boði dagsferð á snjóþrúgum með leiðsögumanni, nokkuð sem nemendur kunnu vel að meta. Þeir voru einnig duglegir við að kanna hvað þessa litla en mjög alþjóðlega höfuðborg hefur upp á að bjóða.  

Nemendurnir snúa nú reynslunni ríkari til baka til Ísafjarðar þar sem páskavikan tekur á móti þeim með öllu sem hún hefur upp á að bjóða.


Sigling um Nuup kangerlua.
Sigling um Nuup kangerlua.
1 af 6