SIT nemar kveðja Vestfirði
Undanfarnar þrjár vikur heftur dvalið hér á svæðinu hópur ungra háskólanema frá Bandaríkunum. Nemarnir komu hingað á vegum vettvangsskóla frá School for International Training (SIT) í Vermont-fylki í Bandaríkjunum sem liður í námsáfanganum Iceland: Renewable Energy, Technology, and Resource Economics, þar sem orkutækni og auðlindastjórnun eru í brennidepli.
Heimagisting var í boði fyrst tvær vikurnar og fengu nemarnir sem eru 19 talsins inni hjá fjölskyldum ýmist á Ísafirði eða í Bolungarvík. Nokkrar af gestgjafafjölskyldunum tóku einnig þátt í fyrra þegar heimagisting var í boði í fyrsta skipti hér á okkar svæði fyrir SIT nema. Dvöl nemanna hjá þessum fjölskyldum lauk með veglegu kveðjuhófi sem haldið var að Friðarsetrinu í Holti þar sem hópurinn eyddi síðustu vikunni sinni hér á Vestfjörðum. Sólin lék við Holtið og því var ákveðið að færa borðhaldið út í trjálundinn við Friðarsetrið. Fallega skreytt borð tóku á móti gestgjöfunum og Þorsteinn Þráinsson „Steini kokkur“ var mættur ásamt Evu Friðþjófsdóttur konu sinni og tveimur stórum Muurikka-pönnum. Reiddu þau í sameiningu fram dýrindis veitingar úr fiski, kjöti, grænmeti og ávöxtum, sem þátttakendur lofuðu hástert. Í eftirmat voru steiktir klattar sem voru bornir voru fram með rabbarbarasírópi. Hver nemandi komi einnig með einhver sætindi, svosem heimabakaða köku eða smákökur. Þegar kólnaði með kvöldinu var ákveðið að færa samkvæmið inn í salinn þar sem haldin var kvöldvaka. Sungin voru nokkur íslensk lög sem nemendahópurinn var búinn að læra, við gítarundirleik Hjördísar Jónsdóttur, sem var einn af gestgjöfunum í ár. Svo var kominn tími til að kveðja nemana og ekki að sjá annað en að allir kvöddust með miklum söknuði eftir tvær skemmtilegar vikur.
Við tók dvöl í Holti þar sem nemendur unnu verkefni, heimsóttu fjölskylduna að Hóli í Önundarfirði og kynntu sér vatnsvikjun þeirra. Laufey Eyþórsdóttir kom og kynnti fyrir þeim heiðinn sið og farið var í eftirminnilega siglingu á víkingaskipinu Vésteini í Geirþjófsfjörð. Þar var boðið upp á sögurölt um slóðir Gísla sögu og leikritið sýnt. Dagurinn endaði með grillveislu í tilefni af þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna, 4.júlí.
Hópurinn kvaddi svo Vestfirðina um helgina og dvelur nú í Reykjavík þar sem heimsóttar verða stofnanir á sviði orku- og umhverfismála og farið verður í einhverjar ferðir. Þökkum hópnum kærlega fyrir komuna og hlökkum til að fá nýja nemendur á vegum SIT til okkar að ári.