fimmtudagur 20. júní 2013

SIT nemar ársins komnir til Ísafjarðar

S.l. sunnudag 16. júní steig eftirvæntingarfullur hópur ungra háskólanema út úr flugvélinni á Ísafjarðarflugvelli. Ungmennin munu dvelja næstu þrjár vikurnar hér á norðanverðum Vestfjörðum en um ræða nemendur á vegum vettvangsskóla frá School for International Training í Vermont-fylki í Bandaríkjunum. Í sjö vikur munu þau sitja námsáfanga þar sem fjallað er um orkutækni og auðlindastjórnun, Iceland: Renewable Energy, Technology, and Resource Economics, en jafnframt munu þau nýta tímann á Íslandi til að ferðast um landið.

Fyrsti liður á dagskrá var að koma við í Háskólasetrinu, dusta aðeins af sér ferðarykið og fá að hitta þær fjölskyldur sem ungmennin gista hjá fyrstu tvær vikurnar. Spennan var óneitanlega mikil hjá nemendum sem og gestgjöfum, eins og sést á meðfylgjandi myndum. Verkefnið hefur verið auglýst af og til síðan í vetur og er ánægjulegt hversu góðar móttökur það hefur fengið hjá heimamönnum. SIT nemendur ársins munu gista hjá fjölskyldum ýmist á Ísafirði eða í Bolungarvík og eru meðal gestgjafa nokkrir aðilar sem tóku einnig þátt í fyrra, þegar þetta var reynt í fyrsta sinn.


Dagskrá hópsins er nokkuð þétt næstu daga. Kennsla mun fara fram í skólastofu hér í Háskólasetrinu, þar ber hitann og þungann David Dvorak, prófessor í vélaverkfræði frá Maine Háskóla, sem mun fjalla um hinar ýmsar hliðar orkutækninnar. Nemendur fá einnig aðra stutta fyrirlestra tengda viðfangsefninu og kennslu í íslenskri tungu og menningu. Farið verður í vettvangsferðir þar sem nemendur fá að skoða t.a.m. rafstöðvar og vindorkumælingar. Einnig mun hópurinn far á slóðir Gísla sögu Súrssonar í Geirþjófsfirði og í skemmtisiglingu á Hesteyri. Siðustu vikuna verður gist á Friðarsetrinu í Holti, sem hefur verið mjög vinsæll meðal vettvangsskólahópa undanfarin ár.


Við bjóðum hópinn kærlega velkomin til Ísafjarðar og vonum að dvölin hér verði í senn árangursrík og eftirminnileg.