þriðjudagur 29. júlí 2008

SIT kynnir rannsóknarniðurstöður sínar

Á fimmtudaginn kemur mun hópur námsmanna frá School for International Training í Vermont í Bandaríkjun, sem dvalið hefur við Háskólasetur Vestfjarða að undanförnu, kynna niðurstöður rannsóknarverkefnis síns um hitaveitu bæjarins.

 

Í rannsókninni hafa nemendurnir beint sjónum sínum að Skutulsfirði, þ.e. Eyrinni og Firðinum. Hópurinn skipti með sér verkum og skoðaði hitaveituna með tilliti til ólíkra þátta. Meðal þess sem var til skoðunar var saga kerfisins, orkunotkun og eftirspurn, framboð og afköst, fjármögnun og rekstarkostnaður og fjarstýring kerfisins.

 

Orkubú Vestfjarða hefur aðstoðað hópinn við rannsóknina, veitt viðtöl og boðið upp á fræðslu um starfsemi Orkubúsins. Nemendurnir unnu rannsóknina meðal annars í gegnum upplýsingaöflun á netinu, en einnig með viðtölum við ýmsa aðila í bænum. Hópurinn vill koma á framfæri þökkum til allra sem hafa á einn eða annan hátt verið þeim innan handar á meðan á dvölinni hefur staðið.

 

Kynningin fer fram fram á ensku og hefst klukkan 15.00 í stofu 2 í Háskólasetrinu og eru allir velkomnir.