fimmtudagur 28. nóvember 2013

Rokkhátíð og samfélag

Í Vísindaporti vikunnar mun Nína Guðrún Geirsdóttir fjalla um sýn þjóðfræðinnar á rokkhátíðina Aldrei fór ég suður. En BA ritgerð Nínu Guðrúnar í þjóðfræði ber einmitt titilinn „Maður gerir ekki rassgat einn.“ Rannsókn á samfélagslegum áhrifum tónlistarhátíðarinnar „Aldrei fór ég suður“.

Í ritgerðinni fjallaði Nína Guðrún um páskatímann á Ísafirði og þá aðallega tónlistarhátíðina. Hún tók viðtöl við fimm einstaklinga sem tengjast hátíðinni allir á sinn hátt. Þá var hugmyndin um samfélag og samfélagsvitund tekin fyrir út frá þeirri stemningu sem skapast hefur á páskum á Ísafirði í marga áratugi eða allt frá stofnun Skíðaviku þar árið 1935. Einnig skoðaði hún sjálfboðavinnuna sem fer fram í kringum hátíðina og hvernig hátíðin kom þeim Ísfirðingum sem hún tók viðtal við fyrir sjónir.

Nína Guðrún Geirsdóttir útskrifaðist með BA gráðu í þjóðfræði frá Háskóla Íslands árið 2013.

Vísindaportið er öllum opið og hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs.

Þar sem prófatími er nú að hefjast í Háskólasetrinu verður þetta síðasta Vísindaport ársins. Vísindaportið hefur svo aftur göngu sína um miðjan janúar.