fimmtudagur 21. mars 2013

Ritið þér enn - eða hvað?

Rúnar Helgi Vignisson, rithöfundur og dósent í ritlist, fjallar um ritlistina, kennslu í ritlist og gagnsemi hennar í skólastarfi og lífinu almennt í erindi sem hann heldur í Vísindaporti, föstudaginn 22. mars, í fyrirlestraröð sem kennd er við prófessorsstöðu Jóns Sigurðssonar.

Rúnar Helgi spyr hvort hægt sé að kenna fólki að skrifa og hvort nemendur fái nógu mikið svigrúm til þess að nota móðurmál sitt á skapandi hátt í skólakerfi okkar. Hann gerir grein fyrir þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki ritlistarkennslu og reynir að útskýra hvernig fólk nær tökum á ritun, hvort sem er í formi skáldaðs eða óskáldaðs texta.


Rúnar Helgi lauk BA-prófi í ensku frá Háskóla Íslands 1981 og meistaraprófi í bókmenntum frá University of Iowa 1987. Hann hefur nú umsjón með ritlistarnámi við Háskóla Íslands. Hann er höfundur sjö skáldverka og hefur þýtt sextán bækur. Fyrir þýðingar sínar hefur hann m.a. unnið til Íslensku þýðingaverðlaunanna og nýjasta skáldverk hans, sagnasveigurinn Ást í meinum, hlaut á dögunum Menningarverðlaun DV.

Vísindaportið hefst klukkan 12:10 í kaffistofu Háskólaseturs. Allir velkomnir.