þriðjudagur 25. apríl 2017

Rannsaka hafísröndina með bækistöð á Ísafirði

Bandarískt teymi í hafís-, veður- og loftslagsrannsóknum hefur komið sér upp bækistöð á Ísafjarðarflugvelli og Háskólasetri Vestfjarða til að stunda mælingar á áhrifum vindafars og geislunar á hreyfingu hafíss. Teymið mun fljúga í lágflugi yfir lagnarísinn úti á Grænlandssundi og safna ýmsum veðurfarstengdum gögnum, sem munu nýtast til að bæta flugöryggi og dýpka þekkingu á loftslagsbreytingum.

Rannsóknarverkefnið ber heitið IceEdge og er samstarfsverkefni Veðurfræðideildar Háskóla bandaríska sjóhersins (Naval Postgraduate School) og Háskólaseturs Vestfjarða. Nemar í starfsþjálfun á Háskólasetri Vestfjarða sem stunda nám hafeðlisfræði við Tækniháskólann (SeaTech) í TOULON í Frakklandi munu vinna úr mælingum sem aflað er í leiðangrinum.

Bandaríska teymið samastendur af sex manns, rannsóknarmönnum, flugmönnum og flugvirkja og mun það dvelja á Ísafirði fram í miðjan maí. Sérútbúin Twin Otter-flugvél í eigu bandaríska sjóhersins verður notuð við rannsóknirnar og mun hún sennilega ekki fara framhjá íbúum í Skutulsfirði þessa daga. Flugmennirnir hafa notið leiðsagnar hjá Ísfirðinginum Hálfdáni Ingólfssyni sem hefur mikla reynslu af flugi á norðurslóðum og víðar við mismunandi aðstæður.

Fyrir teyminu fer Hafliði Jónsson rannsóknarprófessor við loftslagsdeild háskóla bandaríska sjóhersins í Kaliforníu (Naval Postgraduate School). Hafliði vann um árabil við Veðurstofu Íslands og sinnti á þeim tíma snjóflóðarannsóknum og var frumkvöðull í því að beita eðlisfræðilegum aðferðum við að meta útbreiðslu snjóflóða. Teymið kom vestur á Ísafjörð fyrir milligöngu Björns Erlingssonar, sérfræðings hjá Veðurstofu Íslands í sjávarflóðarannsóknum og lagnarísrannsóknum.

Staðsetningin á Ísafirði hefur hefur mikla þýðingu fyrir útfærsluna á verkefninu, en hafíssvæðið sem valið er til rannsóknanna liggur á milli Vestfjarða og Grænlands.  Þar sem flugvélin flýgur mikið til lágflug við mælingar yfir ísnum fást fyrir vikið umtalsvert meiri mælingar úr þeim flugtíma sem varið er vegna staðsetningarinar á Ísafjarðarflugvelli.

Teymið bandaríska hefur sína bækistöð annars vegar á Ísafjarðarflugvelli og svo í Háskólasetri, í nánd við vísindasamfélagið og Veðurstofu/Snjóflóðasetur. Háskólasetrið aðstoðar þennan leiðangur með ráðum og dáð, aðallega varðandi hagnýtu málin sem þarf að leysa. Tengiliður er Björn Erlingsson hjá Veðurstofu Íslands.


Mynd úr hafísreklíkani sem Björn Erlingsson hefur unnið að því að þróa. Myndin sýnir hluta þess svæðis sem rannsóknarteymið bandaríska einbetir sér að.
Mynd úr hafísreklíkani sem Björn Erlingsson hefur unnið að því að þróa. Myndin sýnir hluta þess svæðis sem rannsóknarteymið bandaríska einbetir sér að.